Stúlkur virðast eiga auðveldara með að fela einkenni einhverfu en strákar. Þess vegna greinast þær oft seint og það hefur neikvæð áhrif á líðan þeirra, heilsu og lífsgæði,“ segir Sigrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna. Með því útskýrir hún titil nýrrar íslenskrar heimildarmyndar sem nefnist Að sjá hið ósýnilega sem verður forsýnd í dag, á alþjóðlegum degi einhverfu. Þar segja sautján konur á einhverfurófi frá lífi sínu og reynslu. Myndin er framleidd af Kraumar og Eyjafilm í samvinnu við Einhverfusamtökin.

Um lokaða sýningu er að ræða í dag en myndin verður sýnd í Bíó Paradís 9., 16. og 24. apríl og hægt að kaupa miða á tix.is.

Einhverfusamtökin hafa netfangið einhverfa.is. Sigrún kveðst hafa unnið á skrifstofu þeirra í fimmtán ár, en áður verið í stjórn þeirra í sex ár.

Þegar hún er spurð hvaða skýring sé á því að konum gangi betur að leyna einhverfueinkennum en karlmönnum svarar Sigrún: „Þeim tekst að herma eftir stúlkum og konum í kringum sig en í það fer gríðarleg orka sem tekur sinn toll. Þær geta verið algerlega búnar á því, og eru oft komnar með kvíða- eða þunglyndisgreiningu þegar einhverfan uppgötvast. En eftir það ná þær oft betri tökum á lífinu því sjálfsskilningur eykst.“