„Sem áhugamaður um literatúr hef ég alltaf haft dálæti á Völuspá fyrir það hversu kynngimögnuð hún er,“ segir Jón Gnarr, sem syngur kvæðið Völuspá við eigið lag á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi í dag. Viðburðurinn ber yfirskriftina „Jón Gnarr og Þeyr 2“ en flutningurinn er hluti af útskriftarverkefni Jóns í Listaháskólanum, þar sem hann er nú að ljúka mastersnámi.

Til liðs við sig hefur Jón fengið kanónurnar og tvínafnana Hilmar Örn Agnarsson, kórstjóra og organista, og Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoða. Félagarnir hafa prófað ýmsar útgáfur af flutningnum og voru með opna æfingu í Máli og menningu í júní. „Núna ætlum við að koma fram í Landnámssetrinu, bæði því okkur langar til að heyra þetta og svo til að stilla aðeins saman strengi. Þetta er krefjandi verkefni, en það er gaman að koma út úr skólanum með eitthvað sem er algjörlega nýtt fyrir mér.

Ég var hræddur um að mín yrði minnst sem mannsins sem fór yfir um á Völuspá.

Varasamur seiður

Þegar Jón sökkti sér í Völuspá heltók hún hann eins og svo marga aðra. „Ég fékk hana gjörsamlega á heilann. Mig dreymdi hana á nóttunni og nennti helst ekki að tala við neinn um neitt nema Völuspá,“ segir hann. „ Ég vaknaði hummandi hin og þessi erindi og sofnaði hummandi hana á kvöldin. Þetta var langt tímabil.“

Jón segir Völuspá kraftmikinn seið þar sem galdrar séu að verki. Það sé því nauðsynlegt að nálgast kvæðið af varkárni. „Ég var hræddur um að mín yrði minnst sem mannsins sem fór yfir um á Völuspá. Ég myndi ganga um göturnar muldrandi og fólk segði: „Er þetta ekki Jón Gnarr? Var hann ekki svo fyndinn og skemmtilegur? Jú, jú, en hann fór svo yfir um á Völuspá,“ hlær Jón, sem hrósar happi fyrir að hafa ekki endað úti í skurði, ristur galdrastöfum.

Lurinn lokkar

Leikið verður á ýmis hljóðfæri við flutninginn og má þar nefna hljómborð, steinhörpu, bjöllur og flautur frá Páli frá Húsafelli. Þá gætu gestir átt von á að sjá norskan víkingalúður úr kopar, svokallaðan lur. „Það er ekki alveg staðfest enn þá svo ég vil ekki lofa honum upp í ermina á mér,“ segir Jón. „Það væri leiðinlegt ef fólk væri komið til að sjá lurinn og yrði svo fyrir vonbrigðum og færi að væna okkur um lygar.“

Í Borgarnesinu á svo séríslenskur andi til að leggjast yfir fólk, blandinn sagn- og goðafræði. Jón sleppur ekki við hann frekar en hver annar. „Ég hef sterkar taugar til þessa húss, bæjar og landsvæðis,“ segir hann. „Þetta kvæði er mikill þjóðararfur svo staðsetningin er vel við hæfi. Útskriftarsýningin í ágúst verður svo í Þjóðminjasafninu sem er líka vel við hæfi.“

Jón fyrir miðju, umvafinn Hilmari og Hilmari. mynd/aðsend

Skugga-Sveinn og Óorð

Eftir að útskrifast í haust stefnir Jón svo á að fara norður, þar sem hann hefur tekið að sér hlutverk Skugga-Sveins í samnefndu leikriti. Hann lætur ekki þar við sitja heldur má með haustinu einnig vænta bókarinnar Óorð – bókin um vond íslensk orð. „Þar verð ég að vega að ýmsum orðum sem mér hefur verið í nöp við og tel að mál okkar yrði betra ef við myndum losa okkur við,“ segir Jón.

Tónleikarnir í Landnámssetrinu hefjast kl. 16 og tekur flutningurinn um klukkustund.