Starfi Michaels Nevin sem sendiherra Bretlands á Íslandi lýkur á næstu dögum. Hann á eftir að sakna eins og annars, þar á meðal hugarfars þjóðarinnar.

„Við héldum að við myndum þekkja alla eftir hálft ár eða svo,“ segir Michael Nevin, fráfarandi sendiherra Bretlands á Íslandi, um komu sína til landsins fyrir tæplega fimm árum síðan. Áður en hann kom til Íslands hafði hann sinnt opinberum störfum fyrir bresku ríkisstjórnina í borgum víðs vegar um heiminn – þar á meðal Osaka, New York og nú síðast í Naíróbí.

„Ég er sjálfur frá Norður-Írlandi svo að umhverfið kom mér ekki á óvart þótt ég væri að koma frá Afríku,“ segir Michael. „Við heimsóttum landið 2008 svo að ég vissi eitt og annað um landið, en það var einna helst afríski kötturinn okkar sem vissi ekki hvað í ósköpunum væri í gangi. Hann flýr ennþá inn í húsið þegar íslenski vindurinn blæs.“

Eflt samband

Heimsástandið hefur ekki beint verið stillt á undanförnum árum og mörg af helstu málunum á könnu Michaels hafa tengst Covid og Brexit. Hann telur að útganga Breta úr Evrópusambandinu hafi eflt samband þeirra við Íslendinga.

„Ef við mælum það út frá samningum og opinberum fundum þá var aukningin veruleg eftir Brexit,“ segir hann. „Bretland var að skipta um stefnu og við vildum efla og endurmóta sambönd okkar við ýmis lönd. Bretar eiga margt sameiginlegt með Íslendingum sem eru ekki heldur hluti af sambandinu.“

Í maí í fyrra gerðu Ísland og Bretland með sér samkomulag um samstarf ríkjanna til næstu 10 ára með það markmið að efla tvíhliða og svæðisbundna samvinnu, þar sem meðal annars er lögð áhersla á sjávarútveg, viðskipti og nýsköpun.

„Grundvöllurinn að þeirri vinnu sem er fram undan hefur verið lagður og þar með er mínu verki hér lokið,“ segir Michael sem snýr aftur til London í ágúst eftir þrettán ára heimshornaflakk. „Ég er ekki alveg viss um hvað bíður mín þar en það kemur í ljós á næstu mánuðum.“

Grætur skötuna

„Augljóslega á maður eftir að sakna þess að geta fengið sér skötu,“ segir Michael og hlær aðspurður um hvers hann muni helst sakna frá Íslandi. „En það verður þó ýmislegt sem ég mun sakna. Það er svo mikið aðgengi að hlutum sem við tökum sem gefnum og Ísland er auðvitað eitt öruggasta land í heiminum.“

Hugarfar Íslendinga má samkvæmt Michael útskýra með slagorði fataframleiðandans Nike, „Just do it“ eða „Gerðu það bara“.

„Er veðrið slæmt? Hvaða máli skiptir það? Gerðu það bara. Viltu reyna fyrir þér í tónlist? Gerðu það bara!“ segir hann. „Það er ákveðið andrúmsloft sem er svo ánægjulegt hérna. Viðbrögð Íslands við faraldrinum eru líka gott dæmi um það hvernig samfélög geta staðið saman og tekist á við vandamál. Það eru fá lönd sem hafa staðið sig betur gegn Covid en Ísland.“

Michael og eiginkona hans eru mikið áhugafólk um náttúru Íslands, en í stað þess að kynnast henni í gegnum gönguferðir var áhugi þeirra á golfi drifkraftur til að ferðast um landið. „Eitt af markmiðum okkar við komuna til Íslands var að spila alla átján holu velli landsins. Ég er ánægður með að geta greint frá því að það hafðist,“ segir Michael sigri hrósandi. „Það er vissulega gaman að segja við fjölskyldu og samstarfsfólk í öðrum löndum að maður hafi verið að koma heim úr golfi stuttu fyrir miðnætti.“