Elsku Helgi bróðir.

Ef ég mætti bara velja eitt orð til að lýsa þér þá yrði hugrekki fyrir valinu.

Þú varst alltaf fyrsti maður til að umbera og fyrirgefa enda hafðir þú einstakan hæfileika til að setja þig í spor annars fólks og dæmdir engan. Það er sjaldgæft hugrekki. Þú vissir og skynjaðir að yfirleitt er ekki allt sem sýnist, ekki síst í lífi þeirra sem reyndu hvað mest á þolrifin í þér. Þótt þú værir ljúfur og friðsamur og hafir borist lítið á þá gekkst þú jafnan hiklaust inn í aðstæður til að skakka leikinn ef þess þurfti. Skipti þá engu þó við ofurefli væri að etja, bæði líkamlega og andlega. Réttlætið var þér í blóð borið og þú varst hinn hljóðláti hermaður þess. Þó tíminn hafi verið ótrúlega skammur frá því þú greindist með krabbamein á lokastigi þar til þú kvaddir þá gerðist engu að síður kraftaverk hvern einasta dag á þeim tíma. Það var magnað að fylgjast með þér. Þarna stóðst þú enn og aftur frammi fyrir ofurefli og hvað gerðir þú? Það sama og þú hafðir gert allt þitt líf. Möglunarlaust tókst þú við verkefninu og tókst á við það með því einstaka, lítilláta hugrekki og þolgæði sem einkenndi þig.

Þú sagðir mér að þú litir á þetta verkefni sem þolinmæðisverk. Og ekki orð um það meir. Þetta hugarfar lýsir þér svo vel. Þú vissir að tíminn var af skornum skammti, yrði jafnvel aðeins mældur í klukkustundum. Ekki þýddi að eyða orku í það sem engu máli skipti. Líffærin sem í hlut áttu voru kortlögð, grúskað, spáð og spekúlerað með fjölskyldumeðlimum og einbeitt sér svo að því með frábærri hjálp starfsfólksins á Lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri og fleiri deildum þar, að bæta það sem tíminn og skynsemin leyfði. Enn og aftur tókst þér með góðri hjálp hið ómögulega eins og þegar þú lamaðist ungur. Þú komst aftur á fætur og nýttir tímann til hins ítrasta í samverustundir með þínum nánustu. Á þinn milda hátt lést þú ekkert koma í veg fyrir að taka upp dýrmæta lífsþræði þar sem frá var horfið enda veitti það þér gleði, kraft og styrk í þessu erfiða ferli.

Elsku Helgi. Allt þitt líf hafðir þú einstakan hæfileika til að laga það sem var brotið, bilað og skemmt. Skemmtilegast var auðvitað ef það snéri að alls konar jeppum og bílum. En það þurfti líka stundum að bæta margt annað. Það var ekkert endilega víst að það sem var lagað liti út eins og í upphafi, en ef það var eitthvað heillegt í einhverju þá var það þess virði að koma því aftur í gang. Þú hirtir heldur ekki mikið um hvort yfirborðið væri fágað og fínt eða hvert álit annarra var á tímanum sem í viðgerðirnar var varið í samhengi við mælanleg verðmæti. Fyrir þér skipti innihaldið, ekki útlitið máli. Ferðalagið var mikilvægara en áfangastaðurinn.

Þú kenndir okkur hinum svo margt með fordæmi, ekki orðum. Að morgni Skírdags kvaddir þú þetta líf í miðju spjalli með morgunkaffinu með þínum besta vini, Andra bróður, sem hélt í hendina á þér á meðan þú hélst af stað í ferli sem þú þekktir svo vel frá því að þú barðist ungur fyrir lífi þínu á sama sjúkrahúsi,lamaður í öndunarvél eftir hræðilegt slys. Þú hafðir aldrei haft mörg orð um þessa fyrri reynslu þína sem tryggði algert óttaleysi þitt við dauðann. Ekki frekar en aðra hildi sem þú hafðir háð í þínu lífi. Þú sem varst svo jarðbundinn og mikill áhugamaður um tækni, nýsköpun og eðlisfræðilega virkni allra hluta og lífvera. Þess merkilegri var einmitt lýsingin þín á þessu fyrirbrigði. Það var þér líkt að byrja að tala um þessa upplifun opinskátt þegar þú vissir hvert stefndi, því alltaf var þér efst í huga velferð og líðan þinna nánustu. Að venju hafðir þú tekið eftir tæknilegum smáatriðum eins og að göngin með ljósið við endann voru kónísk. Magnaðast var þó að hlusta á þig lýsa því að þarna ríkti algjör friður. Þetta tvennt hlaut að boða eitthvað gott fyrir tækninörd og friðarsinna. Þú tókst þér líka góðan tíma til að stúdera og skrúfa saman ýmis praktísk mál til að tryggja að allt gengi smurt og í sem mestum friði áður en þú kvaddir.

Elsku bróðir minn Ljónshjarta. Þakka þér fyrir hugrekkið, æðruleysið og takmarkalausa kærleikann sem þú bjóst yfir og gafst af þér. Þakka þér fyrir styrkinn og endalausu þolinmæðina sem þú sýndir ávallt í verki. Þakka þér fyrir að kenna okkur hinum að allt sem þarf til að breyta því sem hægt er að breyta er kjarkur og að æðruleysið er ævinlega besta vopnið til að sætta sig við það sem fæst ekki breytt. Vonandi höfum við sem eftir verðum svo vit á að feta í fótspor þín í vinnunni við að greina þarna á milli. Þegar upp er staðið er lífið nefnilega einfaldlega eins og þú sagðir: þolinmæðisverk.

Það er gott og huggun harmi gegn að vita af þér á stað þar sem þú ert loksins laus frá öllum meinum.

Farðu í friði elsku bróðir. Sjáumst síðar.

"Ég er ekki hræddur við að deyja.

Ég hef alveg dáið áður og það er bara ljós, og algjör friður"

(Helgi Lárusson)

Þín systir, Ólöf Ýr Lárusdóttir