Minningarnar um þig hrannast upp í huga mér. Lítill strákhnokki með fallegu ljósu lokkana og einn kolsvartan lokk. Lokkurinn stóð eins og flagg upp úr hvirflinum og gránaði á unga aldri. Glaðvær fjörkálfur, fyndinn, orðheppinn og með eindæmum stríðinn, sérstaklega í minn garð á tímabili.

Oft varð heitt í kolunum okkar á milli vegna stríðni þinnar, flogist á og orðaskak en auðvitað féllumst við alltaf í faðma í lokin. Þú fékkst fljótt brennandi áhuga á bílum, vélbúnaði og dundaðir löngum stundum í bílskúrnum við að gera upp bíla. Nákvæmur, fjölhæfur og vandvirkur til allra verka.

Árið 1987 urðu kaflaskil í þínu lífi, þegar þú varðst fyrir slysi þar sem þú lást á milli heims og helju í tvær vikur. Þegar þú komst til meðvitundar og gast aðeins tjáð þig á blaði, skrifaðir þú: “Ég er eins og ólíuhreinsistöð með allar þessar slöngur og tæki”. Alltaf með kímnigáfuna á réttum stað til að létta á þínu fólki. Þegar ég heimsótti þig kvöldið fyrir andlát þitt var mjög af þér dregið en andinn sterkur. Við systkinin göntuðumst með þér og hlógum saman.

Þér lá líka mikið niðri fyrir að við læsum yfir erfðaskrána og hvernig þú vildir hafa allt í kring um jarðarförina þína. Vegna þess að þér var umfram allt umhugað um börnin þín þrjú sem þú varst ákaflega stoltur af enda öll vel gerðar manneskjur. Þú varst ekki hræddur við að deyja. Sagðir við okkur að það hefðir þú prufað tvisvar sinnum. Aldrei hefði þér liðið eins vel á ævinni, þar sem að þú gekkst inn í björt ljósgöng og fannst ólýsanlegan frið. Dauðastríð þitt tók aðeins fimm vikur. Þú mættir örlögum þínu af æðruleysi, styrk og umhyggju fyrir þínum nánustu.

Ég er þakklát fyrir að hafa átt þig sem bróðir. Þú hefur kennt okkur systkinunum svo mikið með æðruleysi þínu. Það er sterkur strengur á milli okkar systkinanna og nú hefur stórt skarð verið höggvið með fráfalli þínu. Þú munt alltaf vera í hjarta okkar. Starfsfólki lyflækningadeildar Sjúkrahússins á Akureyri ber ég mínar bestu þakkir fyrir alúðlega umönnun í hvívetna. Elsku bróðir, nú hefur þú fengið hvíldina og ert genginn inn í fallegu ljósgöngin þín og friðinn. Ég er viss um að amma Lauga hefur staðir þar í fararbroddi með opinn faðminn til að taka á móti þér. Hvíl í friði elskulegur, minningin um góðann dreng lifir.

Vertu sæll að sinni, þig signi ljósið bjarta.

Þín systir Vala Lárusdóttir