„Það er mikill söngur í Frívaktinni en líka góð saga sem hreyfir við fólki,“ segir Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, formaður Leikfélags Sauðárkróks, um inntak leikritsins Frívaktarinnar sem frumsýnt verður í kvöld í samkomuhúsinu Bifröst á Króknum.

„Verkið snýst um örlög fólks, ástir, sorg og gleði – líf á sjó og landi. Svo er tónlistin flott, eitt frumsamið lag en hin eru þekkt og af öllu tagi, mörg sjómannalög sem eru auðvitað klassík.“

Sjómannalögin eiga sinn sess í leikritinu eins og í þættinum Á frívaktinni.

Samið á Öxnadalsheiði

Höfundur Frívaktarinnar er Pétur Guðjónsson leikstjóri á Akureyri. Hann fékk hugmyndina þegar hann var að keyra á æfingar hjá Leikfélagi Sauðárkróks haustið 2019, að sögn Sigurlaugar.

„Félagið setur jafnan upp tvær sýningar á ári, aðra í upphafi Sæluviku, síðasta sunnudag í apríl og fjölskyldusýningu á haustin. Lína Langsokkur var hér á fjölum haustið 2019 undir stjórn Péturs, þá báðum við hann strax að halda utan um næstu sýningu. Hann var með hugmynd að verki í kollinum og skilaði handriti í lok janúar 2020. Við byrjuðum í febrúar að kasta í hlutverk og leiklesa og höfðum verið að í þrjár vikur þegar kórónaveiran skall á. En fólk var með handritin, hlustaði á lögin og hélt ýmsum boltum á lofti. Svo slepptum við barnasýningu síðasta haust en héldum Frívaktinni lifandi.“

Lunginn af leikarahópnum ásamt Pétri Guðjónssyni leikstjóra og höfundi. Myndir/Gunnhildur Gísladóttir

Á sama tíma að ári

Leikæfingar hófust aftur í febrúar síðastliðnum en voru höktandi vegna samkomutakmarkana, að sögn Sigurlaugar.

„Við gátum æft litlar senur og því er hægt að frumsýna núna. Allar æfingar hafa verið utan venjulegs vinnutíma og krafist mikils skipulags, því leikarar eru 23 og um 45 manns koma að sýningunni. Fólk þurfti stundum að fara heim og koma aftur sama kvöld því ekki máttu vera fleiri en tíu í húsinu. Við fengum útvarpsfólkið Gerði G. Bjarklind og Sigvalda Júlíusson til að lesa inn kveðjur. Það var mikill heiður. Sem formaður er ég alltaf stolt af leikfélagshópnum en sjaldan eins og nú því samstaðan þar hefur verið ótrúleg og allt er að ganga upp.“

Salurinn í Bifröst tekur yfirleitt 92 í sæti en nú þarf eins metra bil.

„Miðasölusíminn er 849 9434 og við hvetjum fólk í sömu kúlu til að panta og mæta saman,“ segir Sigurlaug.