Sýningin Fjórir ættliðir byggist á ljósmyndum eftir föður minn, Sigurð Guttormsson, sem var bankamaður í Eyjum. Hann tók víða myndir af híbýlum fátæks fólks, segir Selfyssingurinn Gísli Sigurðsson, sem hefur hengt upp eigin teikningar eftir myndum föður síns á loftinu í Gallery Grásteini. Dætur Gísla, Christine og Katrín og dótturdóttirin María Guðjohnsen, sýna með honum og vinna út frá sama þema en á annan hátt.

Sigurður Guttormsson var fæddur 1906 og lést 1998. Ein ljósmynd af óásjálegu húsi er eftir hann á sýningunni. Líka tilvitnanir í hann um bágan aðbúnað fólks, úr Tímaviðtali sem Birgir Sigurðsson tók. „Faðir minn var mjög vinstrisinnaður maður og hann gaf Alþýðusambandi Íslands á þriðja hundrað ljósmyndir í þeim tilgangi að það notaði þær til að sýna hvernig fátækt fólk á Íslandi byggi í kreppunni. Aldrei varð af því, það ég best veit. Síðan lentu myndirnar hjá Þjóðminjasafninu en voru aldrei sýndar þar heldur. Svo ég ákvað að teikna eftir þeim því þær eru heimildir um okkar sögu,“ segir Gísli.

Listin er í genunum. Christine á tvær stórar ljósmyndir á sýningunni, með sérstakri áferð. Önnur af lítilmagna gegnt háum hamri. Keramiklistakonan Katrín hefur mótað burstabæ með draug uppi á þaki sem reynir að þrýsta því niður. Verkið heitir Auðvaldskrumlan. María er með mynd af þrívíddarteikningu á vegg og í myndbandi, hún nýtir tölvuleikjaforrit í myndlistinni. Verkið heitir Torfkofi á 21. öld. María stundar nám í grafískri hönnun í Berlín og er nú líka með prentverk á veitingastaðnum Coocoo‘s Nest á Granda. Gísli seilist í vasann eftir símanum og bregður því upp í nýrri vídd - með appi. Hreinustu galdrar.