Þegar maður er orðinn svona gamall fer tíminn mikið í það að vera til,“ segir Steinunn Marteinsdóttir í Hulduhólum glaðlega og þykist ekki vera afkastamikil í listinni nú orðið. „En ég reyni að gera eitthvað á hverjum degi, eftir getu og þreki, og svo förum við Árni Bergmann, vinur minn, út að ganga daglega um hina frábæru stíga hér í Mosfellsbæ.“

Steinunn er fræg fyrir leirmuni sína og hefur líka mundað penslana. Myndlistarsýningin JÖKULL-JÖKULL verður opin í Listasal Mosfellsbæjar frá 12. febrúar til 12. mars, í tilefni 85 ára afmælis hennar 18. þessa mánaðar. Hún segir myndirnar bæði gamlar og nýjar, þær elstu frá 1986, það eru vatnslitamyndir. „Þá var ég í París í tvo mánuði, fannst ómögulegt að vera með leir og ákvað að taka upp pappír og pensla,“ rifjar hún upp. Sýningin snýst um Snæfellsjökul. „Hann hefur komið aftur og aftur inn í mína list,“ segir Steinunn. „Á þessari sýningu legg ég áherslu á myndir þar sem hann er jafnvel orðinn að einhvers konar tákni. Þar eru hendur sem leita upp á við og sækjast eftir einhverju háleitu. Nú gæti erindi þeirra hafa snúist upp í ótta um afdrif jökulsins.“

Hendur teygja sig í leit að einhverju.

Steinunn hefur búið við það lán að Snæfellsjökull hefur blasað við henni úr vinnustofunni í Hulduhólum. Hún kveðst líka hafa getað séð hann fyrir sér hvar sem hún var í heiminum. „Ég heillaðist gersamlega af honum þegar ég fór í fyrsta sinn út á Snæfellsnes, þá með móður minni og syni. Ég gekk í björg!“

Listasalur Mosfellsbæjar er inn af bókasafninu og er opinn milli 12 og 18 á virkum dögum og 12 og 16 á laugardögum.

Jökullinn hefur fylgt Steinunni.