Á fimmtu­daginn stendur Fluga­kademía Ís­lands fyrir at­höfn á Reykja­víkur­flug­velli þar sem Erna Hjalta­lín verður heiðruð. Erna var mikill frum­kvöðull í ís­lenskri flug­sögu og varð fyrsta konan til að taka einka­flug­manns­próf, at­vinnu­flug­manns­próf og öðlast réttindi sem loft­siglinga­fræðingur.

Erna fæddist 12. mars 1932, dóttir Svönu og Stein­dórs Hjalta­líns, sem var mikill flug­á­huga­maður. Hún fékk fljótt mikinn á­huga á flugi og hóf sex­tán ára gömul form­legt flug­nám. Að loknu einka­flug­manns­prófi, á 18 ára af­mælis­degi sínum, eignaðist hún sína eigin eins hreyfils Pi­per Club.

Allir sam­nem­endur Ernu voru karl­menn og fengu fast­ráðningu hjá Loft­leiðum að loknu at­vinnu­flug­manns­prófi. Erna fékk því miður ekki sömu tæki­færi en hélt samt á­fram að fljúga og hóf nám í loft­siglinga­fræði árið 1952 og fékk réttindi sem loft­siglinga­fræðingur 1956. Hún hóf störf sem flug­freyja hjá Loft­leiðum 1952 og varð yfir­flug­freyja fé­lagsins árið 1960.

Þrátt fyrir að Erna hafi hvorki verið fast­ráðin at­vinnu­flug­maður né loft­siglinga­fræðingur átti hún þó að baki 217 klukku­stundir sem flug­maður, 462 klukku­stundir sem loft­siglinga­fræðingur og sem flug­freyja flaug Erna í fleiri tugi þúsunda klukku­stunda. Hún lést þann 14. maí 2021.

Þrátt fyrir að Erna hafi hvorki verið fast­ráðin at­vinnu­flug­maður né loft­siglinga­fræðingur átti hún þó að baki 217 klukku­stundir sem flug­maður og 462 klukku­stundir sem loft­siglinga­fræðingur.

Af­kom­endur í heiðurs­flugi

Við at­höfnina á fimmtu­dag verður ein af kennslu­vélum skólans nefnd eftir Ernu en Fluga­kademían hefur áður heiðrað flug­frum­kvöðla með sama hætti. Þar á eftir mun Óskar Pétur Sæ­vars­son, for­stöðu­maður akademíunnar, taka af­kom­endur Ernu í stutt flug um borð í vélinni.

„Það er svona draumur að það verði á­gætis­veður, við getum verið úti með vélina og haft fána yfir nafninu, og svo smá kaffi og kökur,“ segir Óskar Pétur.

Frá því að Erna hóf flug­feril sinn hefur jafn­rétti innan stéttarinnar batnað til muna og í dag eru kynja­hlut­föll flug­manna á Ís­landi með þeirra bestu í heiminum.

„Það skiptir engu máli í flugi með hverjum þú flýgur. Við erum með staðlaðar vinnu­reglur og vinnum öll að sama mark­miði,“ út­skýrir Óskar Pétur. „Sem flug­mönnum skiptir kyn eða litar­háttur þess sem við fljúgum með okkur engu máli. Það er bara ekki boðið upp á það í flugi þar sem öryggi og sam­vinna skiptir lang­mestu máli.“