Jón Kr. Ólafsson segir þann tíma liðinn að hann geti sungið Sigvalda Kaldalóns og slíka tónlist. Hann hefur því fengið unga söngvara til að sjá um þann þátt á tónleikum sem hann heldur í kvöld, í tilefni 60 ára sviðsafmælis, í hátíðasal FÍH í Rauðagerði.

Ég myndi segja að þetta væru tímamótatónleikar. Þetta er byggt upp þannig að ég er með unga söngvara í vinnu því ég syng ekki lengur sjálfur Sigvalda Kaldalóns og eitthvað slíkt. Ég er kominn undir áttrætt og sá tími er bara liðinn,“ segir Jón Kr. Ólafsson söngvari á Bíldudal.

Í kvöld verða haldnir tónleikar undir yfirskriftinni „Jón Kr. í 60 ár“ og fara þeir fram í hátíðarsal FÍH. „Ég átti 60 ára sviðsafmæli á liðnum vetri en ég var bara 17 ára þegar ég steig fyrst á svið með danshljómsveit. En ég var á tvennum vígstöðvum því ég söng líka í kirkjukór og var einsöngvari við kirkjuna. Söng kannski við jarðarför á laugardegi og var svo kominn upp á svið á balli í einhverju félagsheimili um kvöldið.“

Á tónleikunum verða bæði flutt dægurlög sem Jón hefur sungið á sínum ferli sem og klassískt prógramm sem hann söng fyrir Ríkisútvarpið þegar hann var rúmlega þrítugur. Hann segir að það megi þakka Svavari Gestssyni útvarpsmanni að upptökurnar hafi ekki glatast á sínum tíma.

Hann ákvað síðasta haust að ráðast í endurútgáfu á þessum upptökum og leyfði þá Kristjáni Jóhannssyni tenór og vini sínum að heyra. „Kristján spurði mig nú af hverju ég hefði ekki farið til Ítalíu í klassískan söng. Ég var hugsi yfir þessu en þegar ég var að brölta þetta þá voru engir hlaupandi á eftir mér með seðlabúnt. Hver hefði átt að borga brúsann?“

Það séu aðrir tímar í dag og allt bullandi í tækifærum sem ekki voru þá. „Það er ekki hægt að líkja því saman en það er aldrei að vita hvað hefði orðið.“

Jón hefur ákveðið að syngja sjálfur eitt lag á tónleikunum. „Mig langar að syngja lag eftir vin minn Fúsa [Sigfús Halldórsson]. Ég er að spá í að syngja Játningu. Ég er svo rómantískur í mér sem þykir víst ekki fínt í dag en það kemur mér ekkert við. Það er þarna ein hending sem er svo falleg, „Og ástarljóð til þín verður ævikveðja mín“. Þetta er náttúrulega yndislegur texti eftir Reykjavíkurskáldið Tómas Guðmundsson.“

Eins og fyrr segir nálgast Jón nú áttrætt og viðurkennir að tónleikarnir verði ekki mikið fleiri. „Já, þeim fækkar nú óðum en ég er búinn að taka þá ansi marga. Ég verð bara að segja að það er mín hjartans meining að þetta kerfi sem er í hálsinum á mér og mér var lánað í vöggugjöf er það sem mér þykir vænst um af öllu sem ég hef fengið. Eins og einn kollegi minn sagði, vonandi er ég búinn að gleðja einhverja í gegnum lífið, nú aðra ekki, það gerir ekkert til.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.30.

[email protected]