„Ég hef verið tengd Hörpu allt frá meðgöngu fram á þennan dag, með einum eða öðrum hætti,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir sem hefur verið forstjóri tónlistarhússins í fjögur ár og var áður sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar.

Leist henni nokkuð á blikuna þegar hrunið kom og Harpa var hálfköruð?

„Nei, auðvitað var óvissan mikil á tímabili. Það þurfti hugrekki og framsýni til að taka ákvörðun um að halda áfram með bygginguna og það er ekki hægt að þakka það nógsamlega að sú ákvörðun var tekin árið 2009.

Á þeim tíma var Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og þær skrifuðu undir það samkomulag fyrir hönd borgarinnar og ríkisins sem stóðu saman að framkvæmdinni.“

Harpa skal rísa. Svanhildur Konráðsdóttir, þá sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg, Sigurður Ragnar hjá Íslenskum aðalverktökum, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Svanhildur segir sögu Hörpu varðaða mikilvægum augnablikum.

„Tónlistarmenn höfðu barist fyrir byggingu hússins svo áratugum skipti af ástríðu, krafti og ósérhlífni og ráðamenn hafa í tvo áratugi tekið ákvarðanir sem hafa einkennst af skýrri sýn á hvað menning og listir skipta miklu máli fyrir mannvænlegt samfélag,“ segir hún og bætir við:

„Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef mál hefðu skipast á hinn veginn, að fólk hefði kosið að hrökkva í stað þess að stökkva, í þeirri stöðu sem uppi var. Auðvitað fór fram ískalt mat á því hvaða verðmæti færu í súginn við að hætta framkvæmdum. Það tap og sú trú að þetta hús yrði mikilvægur partur af upprisunni eftir hrun, hjálpaði til við að taka þá þýðingarmiklu ákvörðun að halda áfram.“

Áskoranir hafa einkennt reksturinn frá byrjun, að sögn Svanhildar og þar eru síðustu fimmtán mánuðir ekki undanskildir.

„En að tíu ára afmæli Hörpu skuli lenda á uppstigningardegi lít ég á sem tákn þess að nýir tímar séu að hefjast. Við getum því miður ekki haldið almennilega veislu í dag vegna fjöldatakmarkana en ég lofa afmælishátíð í húsinu á menningarnótt þegar við opnum dyrnar upp á gátt.“