Haraldur Sturlaugsson athafnamaður er fæddur 24. júlí 1949 og er því sjötugur í dag.

„Séra Friðrik skírði mig Harald, foreldrar mínir fengu engu um það ráðið. Fjölskyldan kallaði mig „Hadda“ þegar ég var yngri. „Vinirnir í fótboltanum kölluðu mig Halla – en „Evrópuruddann“ eftir að ég varð fyrsti íslenski leikmaðurinn sem UEFA dæmdi í leikbann í Evrópukeppni 1975,“ segir Haraldur hlæjandi.

Sveitungar segja Harald fremur hlédrægan og látlausan mann en býsna fastan fyrir. Hann er sagður feiminn að eðlisfari og hógvær því oft hefur hann sig ekki mikið í frammi heldur lætur öðrum eftir sviðsljósið.

Snemma forstjóri

Haraldur fór til Englands í skóla eftir gagnfræðapróf og lauk prófi árið 1968 í ensku og verslunarfræðum frá Dane End College í Englandi. Árið 1970 lauk hann prófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst. Að námi loknu hóf hann störf í fjölskyldufyrirtækinu HB & Co á Akranesi. Þegar faðir hans féll frá 1976 tók Haraldur alfarið við stjórnartaumunum aðeins 26 ára gamall. Framkvæmdastjórastarfinu gegndi hann í 35 ár. Auk þess að stýra fyrirtækinu sinnti hann margvíslegum trúnaðarstörfum á sviði íslensks athafnalífs, einkum sjávarútvegs.

Ræturnar: Skaginn og útgerð

„Rætur mínar eru á Skaganum og í útgerð,“ segir Haraldur. Hann er í sjötta ættlið útgerðarmanna allt aftur til Sturlaugs, útvegsbónda og sjósóknara í Rauðseyjum á Breiðafirði. „Afi sagði útgerðarblóðið frá Rauðseyjum.“

„Foreldrar mínir voru hjónin Sturlaugur H. Böðvarsson útgerðarmaður og Rannveig Böðvarsson húsmóðir. Afi minn Haraldur Böðvarssonar, hóf útgerð frá Akranesi árið 1906. Fyrirtækinu var stýrt af þremur ættliðum í 98 ár.“ Haraldur er næstelstur sex alsystkina, en auk þess átti Haraldur eldri hálfsystur sem nú er látin.

Haraldur giftist Ingibjörgu Pálmadóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, árið 1972. Hún er fædd og uppalin á Hvolsvelli en réðst til starfa á Akranesi sem hjúkrunarfræðingur og þá lágu leiðir þeirra saman. „Að kynnast henni hefur reynst mín gæfa,“ segir hann.

Þau eiga fjóra syni, þá Sturlaug, framkvæmdastjóra Norebo Europe, Bretlandi, fæddan 1973; Pálma, viðskiptastjóra hjá Íslandsbanka, fæddan 1974; Ísólf athafnamann, fæddan 1979; og Harald, sölumann hjá Icelandair Cargo, fæddan 1989.

Margvísleg áhugamál

Haraldur hætti sem framkvæmdastjóri árið 2005. Í dag sinnir Haraldur áhugamálum og fjölskyldunni.

Aðspurður um áhugamál segir Haraldur það aðallega vera knattspyrna. „Ég óx úr grasi á Akranesi á sjötta og sjöunda áratugnum á gullöld Skagamanna í fótbolta. Það voru góðir tímar. Ég spilað með Akranesliðinu frá 1966-1975 og nokkra landsleiki. Síðar var ég formaður Knattspyrnuráðs ÍA í nokkur ár,“ segir hann.

„Samfélagsmál hér á Skaganum hafa alltaf verið mér hjartfólgin. Ég hef m.a. unnið mikið með ljósmyndir og þá sögu er þær segja. Haldið ljósmyndasýningar og haldið úti vefsetri um ljósmyndirnar sem tengjast atvinnu- og íþróttasögu Akurnesinga.

„Fjölskyldan á mestan hug minn nú. Við Ingibjörg eigum stolt 16 barnabörn. Þau eru guðsgjöf og okkur mikil uppspretta gleði,“ segir hann.

Hvað ætlar athafnamaðurinn að gera á sjötugsafmælinu?

„Við ætlum að vera með fjölskyldunni í rólegheitunum, gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum,“ segir afmælisbarnið Haraldur Sturlaugsson.