Haraldur S Magnússon, viðskiptafræðingur, fæddist í Leirvogstungu í Mosfellssveit 27. október 1928 og andaðist á Hrafnistu , Hafnarfirði þann 4. maí 2019.
Foreldrar hans voru þau Kristrún Eiríksdóttir saumakona og verkakona, fædd 11. nóvember 1899 í Reykjavík, látin 16. febrúar 1982 og Magnús Sveinsson, bóndi og oddviti á Leirvogstungu í Mosfellssveit, fæddur 3. ágúst 1900, látinn 20. september 1958.
Samfeðra hálfbræður eru Guðmundur fæddur 1934 og Hlynur Þór fæddur 1947, látinn 2017.
Eftirlifandi eiginkona er María Sigríður Ágústsdóttir, fædd 20. október 1929 frá Ólafsfirði. Þau giftust 3. febrúar 1951.

Börn þeirra tvö eru:
1. Margrét Kristrún fædd 10. júní 1951, búsett í Uppsala, Svíþjóð. Eiginmaður Conny Larsson fæddur 25. mars 1952. Þau eiga tvö börn:
a. Anna María fædd 23. mars 1987. Maki hennar er Philip Åstmar fæddur 18. september 1982 og eiga þau dótturina Eddu Maríu fædd, 17. júní 2018.
b. Hannes Axel fæddur 4. júní 1989. Unnusta hans er Aleksandra Obeso Duque fædd 14. maí 1988.
2. Ágúst, fæddur 29.september 1954. Eiginkona hans er Helga Sigurðardóttir fædd 24. desember 1962. Þau eiga tvær dætur:
a. María Sigríður fædd 1. mars 1991
b. Margrét Lóa fædd 18. júní 1993.
Haraldur lauk barnaskóla á Bíldudal, stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Haraldur starfaði í Landsbankanum, rak fasteignasöluna Hús & híbýli og síðan hjá Flugleiðum/Icelandair fram að starfslokum.
Jarðaförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Það var ekki auðvelt líf sem hann karl faðir minn átti. Amma hafði verið mikið lasin á meðgöngunni því fékk hún vinkonu sína til að vera vinnukonu á heimilinu. Þegar móðir og sonur brögguðust ákvað afi að þau flyttu út og vinnukonan yrði eftir. Alinn upp af þrautseigri einstæðri móður átti eftir að móta hann. Að verða tveggja ára veikist hann illa og eyddi næstu tveimur árum sínum á nýjum Landspítalanum, og var einn af fyrstu sjúklingum sem leggjast inn á spítalann. Móðir hans var oft kvödd til að kveðja hann í hinsta sinn. Jón Kaldal ljósmyndari var fenginn til að mynda hann á spítalanum, svona ef ske kynni...

Hún hafði fengið sér vinnu við skúringar á spítalanum til að geta verið með drengnum sínum. Veiklulegur var hann svo á Bíldudal og ekki voru allir sáttir með hann. Reynt var að siða hann að þess tíma háttum og löngu síðar á ævinni bar hann fyrir sig hönd ef einhver hreyfði sig snögglega í hans nærveru. Hann sagði að breski herinn hafi séð til þess að skriftin hans var ekki betri. Skólinn var hertekinn. Svo sagði hann mér hvernig hann hjálpaði blindum afa sínum. Fylgdi honum gjarnan á eldheita kosningafundi þar sem kjaftfor karlinn bölvaði og ragnaði og sagði mönnum til syndanna, svo strákurinn reyndi að láta lítið fyrir sér fara.

Hann var klár hann pabbi. Kom sér í gegnum menntaskólann og lærði viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hann sagði mér sögur frá því þegar hann vann í handlangi í byggingarvinnu og brúarsmíði með skólanum. Það var seigla í honum. Og nýjungagirnin, maður minn. Alltaf var hann framarlega í tæknimálum. Eftir Landsbankaárin rak hann farsæla fasteignasölu sem nokkrar gengisfellingar og svo veikindi sem óprúttinn starfsmaður nýtti sér og kreppan batt svo enda á það ævintýri. Þá fór hann til Loftleiða þar sem hann endaði starfsferilinn sem þá var orðið að Flugleiðum. Eftir á að hyggja hefur Parkinson veikin byrjað einhverjum árum fyrr en hann var greindur. Krafturinn og snerpan dvínuðu stöðugt. Málstolið var svo farið að há honum verulega. En hann bar sig vel.

Hans stoð og stytta í lífinu var mamma. Hún studdi hann alltaf og hans bestu stundir voru að fá að halda í höndina hennar. Í sveitinni orti hann til hennar;

Didda mín ég þakka þér
Þína fylgd um árin
Ást til þín ég ávalt ber
Yndið mitt með gráu hárin.

Það munaði ekki miklu að þau næðu 70 árum saman. Það var eins og að horfa á ástfangna unglinga að sjá þau saman og haldast í hendur, allt fram í andlátið. Það þurfti ekki alltaf orð.
Ég þakka fyrir allar stundirnar sem við áttum saman.

Ágúst
Mig langar að skrifa nokkur falleg minningarorð um hann pabba, en hvernig byrjar maður og hvað á að skrifa? Hugurinn streymir í allar áttir, stór sorg þegar stundin rann upp að hann kvaddi þennan heim en svo koma glaðar minningar líka upp, gamlir dagar og nýjir fljúga framhjá, og minningarnar rigna yfir með órahraða algjörlega í belg og biðu. Pabbi skilur alla vega eftir sig tómarúm og margar góðar og einstakar minningar.

Þegar ég fluttist til Svíþjóðar til að fara í nám, þá þurfti að skrifa bréf eða panta símtal gegnum Landsímann. Við þóttumst heppin að geta talað saman samdægurs í síma eða að bréf skilaði sér innan viku. En sem betur fer þróðaðist tæknin og við gátum síðustu árin spjallað saman fyrst á Skype, og svo á FaceTime eða WhatsApp. Þar með styttist fjarlægðin og í veikindum pabba gátum við pabbi spjallað saman og boðið hvort öðru góða nótt og sent fingurkossa. Það eru ómetanlegar stundir sem ég minnist af mikilli gleði. Þetta voru okkar stundir.

Pabbi og mamma komu oft til okkar til Uppsala, sérstaklega eftir að ömmu- og afabörnin voru komin. Pabba fannst verst að öll fjölskyldan talaði íslensku svo hann gæti ekki æft sig nógu mikið í sænskunni þegar hann á annað borð var kominn til Svíþjóðar. Þess vegna tók hann alla sénsa og hafði ákaflega gaman af að spjara sig sjálfur t.d. í verslunum eða að komast í spjall við fólk á förnum vegi.

Pabbi hafi t.d. mjög gaman af að koma með brandara og fá alla að brosa, sama hvaða tungumál var talað. Oftast skiluðu brandararnir sér mjög vel en það kom líka fyrir að mestur brandarinn kom seinna þegar við skellihlógum með honum að þessarri vandræða stund, þegar aumingja fólkið hafði ekki hugmynd um hvað þessi maður var reyna að að segja.

En það var líka mjög erfitt að vera svona langt í burtu, sérstaklega þessi síðustu ár þegar Parkinson-veikin var farin að hrjá hann mikið og mál- og verkstol orðin áberandi. Mamma var alltaf hans stoð og stytta og þau voru einstaklega samrýnd alla tíð. Og án Ágústar bróðirs hefðu þau aldrei getað búið heima eins lengi og staðreynd varð.

Elsku pabbi minn, minning þín mun lifa. Takk fyrir allt og allt.

Þín dóttir Magga
Bless afi. Ég elska þig.

Hannes