Í tilefni af degi íslenskrar náttúru fer fram sveppaskoðun í Grasagarði Reykjavíkur í hádeginu í dag. Þar mun Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson líffræðingur fræða gesti um lifnaðarhætti og fjölbreytileika sveppa í stuttri göngu.

„Við ætlum að tala um sveppi í alls konar formum og líka um það hvernig það er að vera sveppur,“ segir Jóhannes. „Ef sveppir gætu hugsað, hvað væru þeir að hugsa? Hver eru þeirra markmið og hverjar eru þeirra áskoranir í lífinu? Það er ef til vill eitthvað sem við getum speglað okkur í og annað sem við tengjum engan veginn við.“

Tilvistarhyggja á þannig stærri hlut í göngunni en í fyrstu mætti halda. En hvernig myndi maður þá hugsa ef maður væri sveppur?

„Sveppir eiga í mjög flóknum samskiptum hverjir við aðra. Þeir eru flestir samlífisverur og lifa ekki í tómarúmi heldur í samstarfi við aðrar tegundir,“ segir Jóhannes. „Þeir eru mjög pólitískar verur og þurfa að vinna með réttum aðilum og stinga þá jafnvel stundum í bakið. Það er flókið líf að vera sveppur, miklu flóknara en maður myndi halda.“

Flestir sveppir treysta að einhverju leyti á plöntur og er samlífi þeirra oft báðum í hag.

„Sveppirnir gefa plöntunum þá vatn, steinefni og annað, en plönturnar ljóstillífa og geta gefið sveppunum sykur og hitaeiningar til baka. Þetta er gott samstarf.“

Þá hafa sumir sveppir farið í gegnum landbúnaðarbyltinguna, rétt eins og mennirnir.

„Í staðinn fyrir að leita sér að trjám sem eru tilbúin að hýsa þá, þá fanga þeir litla þörunga sjálfir og nota í eigin landbúnaði. Þeir stýra hvernig þeir geta vaxið og éta allt sem kemur frá þeim. Sveppirnir eru frekar sniðugir.“

Jóhannes segir að áhugi Íslendinga á sveppum hafi aldrei verið jafnmikill og á síðustu árum.

„Það eru ekki mörg ár síðan almenningur fór fyrir alvöru að pæla í sveppatínslu sem einhverju sem fólk gerði áður fyrr ótilneytt,“ segir hann. „Í dag eru mörg þúsund manns á sveppahópum á Facebook og ég held að það mætti segja að fyrsta kynslóð af borgaravísindasveppafræðingum sé að verða klár í slaginn.“

Sveppagangan hefst klukkan 12 við aðalinngang Grasagarðsins og þátttaka er ókeypis.