Markmið hátíðarinnar er að sýna gestum fjölbreytt íslenskt handverk og þá miklu grósku, þann metnað og miklu fagmennsku sem er í íslensku handverki,“ segir Heiðdís Halla Bjarnadóttir sem er önnur af framkvæmdastýrum Handverkshátíðarinnar á Hrafnagili í Eyjafirði. Þessi fjölsótta sumarhátíð verður haldin í 27. sinn um helgina.

Heiðdís segir handverksfólkið koma víða að af landinu. Alls eru 105 hönnuðir og handverksfólk að sýna og selja fatnað, keramik, snyrtivörur, textílvörur og skart.

„Á útisvæði hátíðarinnar er til að mynda hægt að bragða á og kaupa góðgæti beint frá býli á bændamarkaði. Hjálparsveitin Dalbjörg og Ungmennafélagið Samherjar sjá um veitingasölu sem er mikilvæg fjáröflun félaganna ár hvert,“ segir Heiðdís.

Hún segir að ýmsar uppákomur verði í boði alla dagana, til að mynda sýning á gömlum traktorum og svokallaðar miðaldabúðir.

Heiðursgestur hátíðarinnar er alþýðulistamaðurinn Hreinn Halldórsson sem skapar tréskúlptúra og styttur er bera nöfn og sérkenni úr íslenskum bókmenntum og sígildum ævintýrum. Verk hans verða til sýnis á hátíðarsvæðinu.

Heiðdís segir hátíðina vera samvinnu alls samfélagsins í Eyjafjarðarsveit. „Allir taka þátt. Ungmennafélagið, slysavarnasveitin, kvenfélögin, hestamannafélagið, Búsaga og Lionsklúbburinn, koma að undirbúningi, uppsetningu og vinnu við hátíðina.“

Hún segir hátíðina vera fyrir unga sem aldna sem vilja auðga andann og eiga skemmtilega upplifun í Eyjafjarðarsveit.

Handverkshátíðin í Eyjafjarðarsveit er haldin við Hrafnagilsskóla 10 km sunnan við Akureyri og verður opin frá fimmtudegi til sunnudags klukkan 11-18.