Þetta eru töluverð tímamót, en tímabær,“ segir Jóhannes Sigurjónsson, ritstjóri Víkurblaðsins á Húsavík og síðar Skarps, sem hefur kvatt starfið sitt, sáttur í huga. „Við byrjuðum saman ég og Arnar Björnsson íþróttafréttamaður og hættum sama ár. Honum var reyndar sagt upp en ég tók þessa ákvörðun. Það varð sameining á blöðunum tveimur sem voru gefin út hér á Norðausturlandi, sem voru annars vegar Vikudagur á Akureyri og mitt blað sem hét Skarpur. Úr þeim tveimur varð til Vikublaðið. Ég er búinn að gefa út blað í 41 ár. Þegar þessi sameining varð fannst mér liggja beint við að gamlir hundar eins og ég drægju sig í hlé. Ég verð 67 ára í febrúar þannig að það er stutt í eftirlaunaaldurinn.“

Nú kveðst Jóhannes njóta þess að slaka á og taka á móti skyldfólkinu, því straumur fólks liggi norður á Húsavík. „Faðir minn féll frá á síðasta ári, 94 ára, og ég er staðarhaldari í ættaróðalinu sem er talsvert stórt hús. Við erum sex systkinin og ég er í því að opna dyr og hleypa þeim inn, og börnum okkar, barnabörnum og alls konar viðhengjum. Þetta er mjög gaman. Svo er mikil tilbreyting í því og spennandi að fá blað inn um lúguna og lesa alls konar fréttir héðan af svæðinu sem ég hef ekki skrifað eða prófarkalesið þrisvar, fjórum sinnum.“

En hvernig skyldu heimamenn taka því að hann sé hættur? „Ja, það eru náttúrlega margir sem byrjuðu sem áskrifendur að Víkurblaðinu 1979 og héldu tryggð við það og síðan Skarp en þeim fer eðlilega alltaf fækkandi enda meðalaldurinn líklega um sjötugt. Það er enginn áskrifandi að blaði lengur sem er yngri en 65 ára, það er einfalt mál. Sjálfur er ég dálítið háður því að vera með pappírinn í höndunum. Ég er af gamla skólanum.“

Tæknibreytingar í blaðaprentun hafa verið miklar á 40 árum. „Við vorum þrír sem stofnuðum Víkurblaðið 1979, við Arnar Björns og Kári Arnór Kárason. Þá þurfti að velja ritstjóra og ég kom ekki til greina því ég kunni ekki á ritvél. Mínar fréttir voru allar handskrifaðar og sendar í prentsmiðjuna þannig. Svo lærði ég nú á ritvél og síðar kom tölvan. Svo tók ég allar myndir sjálfur og framkallaði og kópíeraði svart-hvítt í bílskúrnum. Það hefur orðið alger bylting.“

Ekki segir Jóhannes eina frétt eða stund eftirminnilegri en aðra í þessu streði öllu. Allt renni saman í eitt. „Ef maður er með vikublað er náttúrlega hending ef maður er fyrstur með einhverja frétt. Þó gat það komið fyrir áður en allt byrjaði að fljúga samstundis á netinu. Blaðið mitt var hluti af Degi á sínum tíma, þá var ég bara í að skrifa pistla og vangaveltur fyrst og fremst, enda kann ég því best. Svo var ég smá tíma á DV eftir að Dagur hætti og þá var hátindi blaðamennskunnar náð, því ég var rekinn af DV sama dag og Jónas Kristjánsson ritstjóri. Það er toppurinn á mínum ferli að hafa fylgt þeim meistara í brottrekstri.“

Spurður hvort hann hafi lent í ævintýraferðum eða háska í sambandi við starf sitt svarar Jóhannes: „Nei, ég er ekki fréttamaður fyrir fimm aura og er þekktur fyrir að fara ekki lengra en út í dyragættina eftir fréttum. Það er auðvitað sérkennilegt að vera blaðamaður í 40 ár og enginn fréttamaður!“