Stúlkan sem stöðvaði heiminn er nýjasta verk leikhópsins 10 fingur. Leikritið segir frá ungri stúlku með fjörugt ímyndunarafl sem sankar að sér alls kyns hlutum sem aðrir hafa ekki áhuga á og býr til sinn eigin heim úr nammibréfum, plastpokum og dósum. Þegar fjölskylda stúlkunnar þarf að flytja vilja foreldrar hennar ekki að hún taki heiminn sinn með sér heldur losa sig við hann á ruslahaugana. Við tekur tilfinningaríkt ferðalag sem leikhópurinn túlkar með plasti.

„Hugmyndin að sýningunni kom til mín fyrir mörgum árum,“ segir Helga Arnalds, leikstjóri sýningarinnar. „Ég las bókina Prýðislandið eftir Grace McCleen sem heillaði mig mjög. Við byggjum verkið ekki á þeirri sögu en hún var kannski kveikjan.“

Helga stofnaði leikhúsið 10 fingur fyrir um þrjátíu árum síðan.

„Upphaflega var þetta einnar konu leikhús, þar sem ég var að gera litlar sýningar sem pössuðu í bílinn minn og ég lék í sjálf,“ segir hún. „Þannig var þetta í talsverðan tíma, en eftir um fimmtán ár fór ég í Listaháskólann í myndlistarnám. Eftir það fóru sýningarnar að breytast og ég fór að vinna meira með að byggja þær á spuna með efni.

Í sýningunni Skrímslið litla systir mín spunnum við með pappír og í sýningunni Lífið var notast við mold. Í þetta skipti völdum við plast,“ segir Helga.

„Við byrjum aldrei sýningarnar okkar á handriti. Við byrjum á myndinni, efninu sem við viljum vinna með. Síðan kemur söguþráðurinn til okkar út úr efninu.“

Þar sem sýningar 10 fingra eru svo myndrænar segir Helga að erfitt geti verið að útskýra þær í orðum.

„Maður verður helst að sjá þær. Það er svo margt sem gerist í myndinni. Í þetta skipti er handritið afurð plastsins, sem er í raun dásamlegur efniviður þó hann hafi vont orð á sér.“

Þótt sýningin sé líklega stærsta verkefni 10 fingra til þessa hafa Skrímslið litla systir mín og Lífið verið að gera það gott ytra.

„Það er búið að setja þetta upp á hátíðum um allan heim, en faraldurinn setti auðvitað strik í reikninginn,“ segir Helga. „Við eigum inni boð til Japans, Frakklands, Kína og fleiri landa, sem við hlökkum til að kanna þegar aðstæður leyfa.“

Helga hvetur alla þá sem vilja verða fyrir hughrifum í leikhúsi að kynna sér Stúlkuna sem stöðvaði heiminn.

„Þetta er djúp upplifun sem við höfum skapað hérna í Borgarleikhúsinu,“ segir hún. „Við höfum verið að miða þetta við börn á aldrinum svona 9–14 ára, en við höfum séð að alveg mun yngri börn njóta sín því þetta er svo myndrænt. Svo hafa fullorðnir ekki síður gaman af þessu.“