Á laugardag fer fram málþing um Gunnlaug Guðbrandsson Briem sýslumann, 250 árum frá fæðingu hans.
Næsta föstudag verða liðin 250 ár frá fæðingu Gunnlaugs Guðbrandssonar Briem sýslumanns. Ævi Gunnlaugs er um margt merkileg en hann var meðal annars fyrsti maðurinn til að taka upp ættarnafnið Briem. Í tilefni af þessum tímamótum stendur Félag um átjándu aldar fræði fyrir málþingi í Þjóðarbókhlöðu á laugardaginn þar sem ævi og störf Gunnlaugs og ættmenna hans verða tekin fyrir í fjórum erindum.
Gunnlaugur var fæddur að Brjánslæk í Barðastrandarsýslu þann 13. janúar 1773. Foreldrar hans voru Guðbrandur Sigurðsson prestur og kona hans Sigríður Jónsdóttir. Guðbrandur lést þegar Gunnlaugur var aðeins sex ára gamall og var prestssonurinn þá sendur í fóstur í Sauðlauksdal.
Fimmtán ára gamall fór Gunnlaugur í nám til Danmerkur og útskrifaðist frá Listaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1795. Þar á eftir hóf hann nám í lögfræði og útskrifaðist tveimur árum síðar. Hann sneri aftur til Íslands sumarið 1799 og gerðist þar aðstoðarmaður Jóns Jakobssonar, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu. Gunnlaugur gekk að eiga Valgerði Árnadóttur, en eitt af erindum á málþinginu fjallar einmitt um hana.
Árið 1805 var Gunnlaugur skipaður sýslumaður í Eyjafirði og sinnti hann starfinu til æviloka. Honum var lýst sem reglusömum embættismanni, ströngum dómara og góðum lögfræðingi þótt lögfræðinám hans hafi verið í styttra lagi. Þótt litlum sögum hafi farið af listiðkun Gunnlaugs eftir að hann sneri heim til Íslands sitja eftir hann þó nokkrir gripir sem varðveittir eru í Þjóðminjasafni Íslands og má sjá á vefsýningu safnsins á sarpur.is.

Stælar í Kaupmannahöfn
En hvernig kom þá ættarnafnið Briem til?
„Hann er fæddur á Brjánslæk, sem var einnig kallaður Brjámslækur, og þaðan dregur hann líklega nafnið. Ég sé ekki betur en að hann hafi tekið upp á þessu sjálfur í Kaupmannahöfn,“ svarar Már Jónsson sagnfræðingur. „Hann skrifar stutt æviágrip á latínu þegar hann sækir um starf þar sem hann kallar þetta Priamus og vísar þar í gríska goðafræði. Þetta eru eiginlega bara einhverjir stælar í honum, en þarna í Kaupmannahöfn vildu menn hafa ættarnöfn því Danir skildu ekkert þessi íslensku föðurnöfn.“
Jarðamatsnefndin
Már flytur erindi á málþinginu þar sem störf Gunnlaugs í jarðamatsnefndinni 1800–1806 verða tekin fyrir. Í kjölfarið á róttækum breytingum af hálfu Dana eftir móðuharðindin var ákveðið að endurskoða fasteignamat á landinu.
„Þetta átti að vera róttæk endurskoðun þar sem Gunnlaugur og þrír aðrir menn voru sendir um allt landið að kalla saman bændur, og sem áttu að gefa út skýrslu þar sem gerð yrði grein fyrir hversu mikill búskapur gæti verið á landinu, dúntekja og svo framvegis,“ útskýrir Már. „Þetta var svo tekið saman í einhverja tölu og niðurstaðan átti að vera hið nýja jarðamat.“
Verk nefndarinnar var stórt í sniðum en alls þurfti að taka út mat á 5.400 jörðum. Gert var ráð fyrir að verkið tæki um sex ár, sem það gerði.
„Þarna er auðvitað um gríðarlega hagsmuni að ræða og mikil tortryggni og þvermóðska sem þeir mættu,“ segir Már. „Gunnlaugur og félagar hans í nefndinni sektuðu fjölda bænda sem gáfu ekki réttar upplýsingar eða sýndu einhvers konar múður. Þetta hefur verið heilmikið taugastríð á meðan þetta gekk yfir.“
Jarðamatsnefndin lauk verki sínu og í dag má finna bækur hennar í Þjóðskjalasafninu, snyrtilega og ítarlega vel frágengnar.
„Að Gunnlaugur hafi verið skipaður í þetta verk sýnir að mönnum hafi eitthvað þótt í hann spunnið þarna í Kaupmannahöfn,“ segir Már.