Á laugar­dag fer fram mál­þing um Gunn­laug Guð­brands­son Briem sýslu­mann, 250 árum frá fæðingu hans.

Næsta föstu­dag verða liðin 250 ár frá fæðingu Gunn­laugs Guð­brands­sonar Briem sýslu­manns. Ævi Gunn­laugs er um margt merki­leg en hann var meðal annars fyrsti maðurinn til að taka upp ættar­nafnið Briem. Í til­efni af þessum tíma­mótum stendur Fé­lag um á­tjándu aldar fræði fyrir mál­þingi í Þjóðar­bók­hlöðu á laugar­daginn þar sem ævi og störf Gunn­laugs og ætt­menna hans verða tekin fyrir í fjórum erindum.

Gunn­laugur var fæddur að Brjáns­læk í Barða­strandar­sýslu þann 13. janúar 1773. For­eldrar hans voru Guð­brandur Sigurðs­son prestur og kona hans Sig­ríður Jóns­dóttir. Guð­brandur lést þegar Gunn­laugur var að­eins sex ára gamall og var prests­sonurinn þá sendur í fóstur í Sauð­lauks­dal.

Fimm­tán ára gamall fór Gunn­laugur í nám til Dan­merkur og út­skrifaðist frá Lista­há­skólanum í Kaup­manna­höfn árið 1795. Þar á eftir hóf hann nám í lög­fræði og út­skrifaðist tveimur árum síðar. Hann sneri aftur til Ís­lands sumarið 1799 og gerðist þar að­stoðar­maður Jóns Jakobs­sonar, sýslu­manns í Eyja­fjarðar­sýslu. Gunn­laugur gekk að eiga Val­gerði Árna­dóttur, en eitt af erindum á mál­þinginu fjallar ein­mitt um hana.

Árið 1805 var Gunn­laugur skipaður sýslu­maður í Eyja­firði og sinnti hann starfinu til ævi­loka. Honum var lýst sem reglu­sömum em­bættis­manni, ströngum dómara og góðum lög­fræðingi þótt lög­fræði­nám hans hafi verið í styttra lagi. Þótt litlum sögum hafi farið af list­iðkun Gunn­laugs eftir að hann sneri heim til Ís­lands sitja eftir hann þó nokkrir gripir sem varð­veittir eru í Þjóð­minja­safni Ís­lands og má sjá á vef­sýningu safnsins á sarpur.is.

Ættartré Gunnlaugs dregið upp af honum sjálfum á blað.
Mynd/Þjóðminjasafnið

Stælar í Kaup­manna­höfn

En hvernig kom þá ættar­nafnið Briem til?

„Hann er fæddur á Brjáns­læk, sem var einnig kallaður Brjáms­lækur, og þaðan dregur hann lík­lega nafnið. Ég sé ekki betur en að hann hafi tekið upp á þessu sjálfur í Kaup­manna­höfn,“ svarar Már Jóns­son sagn­fræðingur. „Hann skrifar stutt ævi­á­grip á latínu þegar hann sækir um starf þar sem hann kallar þetta Priamus og vísar þar í gríska goða­fræði. Þetta eru eigin­lega bara ein­hverjir stælar í honum, en þarna í Kaup­manna­höfn vildu menn hafa ættar­nöfn því Danir skildu ekkert þessi ís­lensku föður­nöfn.“

Jarða­mats­nefndin

Már flytur erindi á mál­þinginu þar sem störf Gunn­laugs í jarða­mats­nefndinni 1800–1806 verða tekin fyrir. Í kjöl­farið á rót­tækum breytingum af hálfu Dana eftir móðu­harðindin var á­kveðið að endur­skoða fast­eigna­mat á landinu.

„Þetta átti að vera rót­tæk endur­skoðun þar sem Gunn­laugur og þrír aðrir menn voru sendir um allt landið að kalla saman bændur, og sem áttu að gefa út skýrslu þar sem gerð yrði grein fyrir hversu mikill bú­skapur gæti verið á landinu, dún­tekja og svo fram­vegis,“ út­skýrir Már. „Þetta var svo tekið saman í ein­hverja tölu og niður­staðan átti að vera hið nýja jarða­mat.“

Verk nefndarinnar var stórt í sniðum en alls þurfti að taka út mat á 5.400 jörðum. Gert var ráð fyrir að verkið tæki um sex ár, sem það gerði.

„Þarna er auð­vitað um gríðar­lega hags­muni að ræða og mikil tor­tryggni og þver­móðska sem þeir mættu,“ segir Már. „Gunn­laugur og fé­lagar hans í nefndinni sektuðu fjölda bænda sem gáfu ekki réttar upp­lýsingar eða sýndu ein­hvers konar múður. Þetta hefur verið heil­mikið tauga­stríð á meðan þetta gekk yfir.“

Jarða­mats­nefndin lauk verki sínu og í dag má finna bækur hennar í Þjóð­skjala­safninu, snyrti­lega og ítar­lega vel frá­gengnar.

„Að Gunn­laugur hafi verið skipaður í þetta verk sýnir að mönnum hafi eitt­hvað þótt í hann spunnið þarna í Kaup­manna­höfn,“ segir Már.