Mig langar að reyna að mála upp mynd af daglegu lífi í samfélagi sem ákveður að takast á við loftslagsbreytingar, segir Hildur Knútsdóttir rithöfundur um erindi sitt á ráðstefnu sem Grænfánaverkefni Landverndar stendur að í Verslunarskólanum á morgun, föstudag, milli klukkan 9.00 og 16.00.

„Ég veit að við þurfum að hugsa margt upp á nýtt,“ heldur Hildur áfram. „En það sem hefur einkennt umræðuna um loftslagsmál er að við þurfum að færa fórnir og ég set spurningarmerki við það, því margt sem mengar mikið gerir okkur ekkert endilega hamingjusöm. Við getum ekki keypt okkur hamingju og að sanka að okkur drasli færir okkur hana ekki.“

Hildur telur ljóst að við þurfum að hægja á en segir slíkar aðgerðir geta fært okkur meiri lífsgæði en við njótum nú. „Stytting vinnuvikunnar gæti verið stór loftslagsaðgerð,“ bendir hún á. „Þá getum við skipulagt okkur betur og höfum meiri tíma til að elda hollan mat. Ég þekki pör sem verða að eiga bíl, jafnvel tvo, til að geta unnið fullan vinnudag og sótt börnin á leikskólann. Ef vinnudagurinn styttist höfum við kannski tíma til að labba með börnin í leikskólann og svo í vinnuna eða taka strætó – að hreyfa okkur meira sem væri okkur líka til góðs.“ Ég veit að loftslagsvandinn verður ekki bara leystur með einstaklingsframtaki, við þurfum líka kerfisbreytingar en það er fullt sem við getum gert sjálf líka.“