Gífurlegt vatnshlaup braust fram með boðaföllum undan Skeiðarárjökli og upp úr honum, að morgni 5. nóvember árið 1996. Það flæddi fram Skeiðarársand með miklum jakaburði. Þar braut það stór skörð í þjóðveg 1 og tvær mikilvægar brýr á sandinum, lengstu brú landsins, yfir sjálfa Skeiðará, og Gígjukvísl.

Vatnselgurinn var afleiðing stórs eldgoss sem hófst undir Vatnajökli, milli Bárðarbungu og Grímsvatna, 30. september þetta ár, kom upp á yfirborðið tveimur dögum síðar og stóð í hálfan mánuð. Hlaupsins hafði því verið beðið í ofvæni í nokkrar vikur. Var vísindafólk farið að klóra sér í kollinum og fréttafólk tekið að ókyrrast á svæðinu en vatnið hafði safnast fyrir í Grímsvötnum þar til það braut sér leið út.

Hlaupið stóð í tvo daga. Flaumurinn virtist ná hámarki um og upp úr klukkan 22.30 fyrri daginn, svo tók hann að réna en jakarnir, sem sumir hverjir voru risastórir, báru vitni um tröllaukinn kraft hans.