Þessu verki hreifst ég af 12 ára gamall þegar það var frumflutt í Þjóðleikhúsinu 1974. Fór þá einn míns liðs að horfa á óperuna af efstu svölum, stóð svo upp og ákvað að verða tónlistarmaður, alveg upptendraður,“ segir Gunnsteinn Ólafsson sem stjórnar tónlistarflutningi Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson í Norðurljósasal Hörpu í kvöld og annað kvöld. Þar koma fram átta einsöngvarar, Háskólakórinn og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Leikstjóri er Bjarni Thor Kristinsson.

Gunnsteinn segir Þrymskviðu nú flutta í tilefni af níræðisafmæli höfundarins Jóns Ásgeirssonar og 100 ára fullveldisafmæli Íslands. „Tilviljun réð því að ég varð nemandi Jóns Ásgeirssonar í tónsmíðum þegar ég var 16 ára gamall og hann hafði gríðarleg áhrif á mig. Hann hefur líka haft mikið að segja í okkar tónlistarlífi. Þetta verk hans, Þrymskviða, er alveg magnað og í því eru miklar sviptingar, auk þess að vera skemmtilegt. Jón er þekktur fyrir flottar laglínur en teygir sig líka langt í tónmálinu. Ég held að þessi ópera sé dálítið lykilverk á hans ferli, sú fyrsta íslenska sem samin var í fullri lengd eftir samkeppni sem var haldin í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar.“

Jón endurskrifaði óperuna árið 1997 að sögn Gunnsteins, stytti hana, tók út dansa og bætti inn aríum í staðinn. „Þetta er í raun frumflutningur þeirrar útgáfu,“ segir hann. „Lítil hlutverk urðu stærri, eins og hlutverk Loka og hlutverk Grímu, það er persóna sem hann býr til og á að vera systir Þryms jötuns.“

Svona er efninu lýst í fréttatilkynningu: Þór uppgötvar að hamar hans Mjölnir er horfinn! Þrymur þursadrottinn hefur rænt honum og heimtar Freyju í lausnargjald. Hún er ófáanleg til þess að fórna sér fyrir hamarinn svo Þór fer í kvenmannsgervi til Jötunheima að endurheimta vopn sitt í fylgd Loka Laufeyjarsonar.

Einsöngvarar eru Guðmundur Karl Eiríksson barítón sem Þór, Margrét Hrafnsdóttir sópran í hlutverki Freyju, Keith Reed bass-barítón syngur Þrym þursadrottin og Agnes Thorsteins mezzósópran er Gríma, systir Þryms. Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór er Heimdallur og Eyjólfur Eyjólfsson tenór syngur Loka.

Gunnsteinn hælir söngvurunum á hvert reipi, þeir eru flestir ungir og hann segir íslenska framtíð bjarta hvað söngvara varði. En verða bara þessar tvær sýningar? „Já, þær eru í Norðurljósasalnum og eru settar upp á svolítið óvenjulegan hátt, sviðið verður eins og rampur fram í salinn þannig að áhorfendur sitja umhverfis það. Svo er engin gryfja þannig að hljómsveitin er á sama gólfi og áheyrendur. Það komast samt um 400 manns á hvora sýningu og við vonum að bekkurinn verði þéttsetinn.“