Tímamót

Hamar Þórs er horfinn

Gamanóperan Þrymskviða, fyrsta íslenska óperan sem samin var í fullri lengd, verður flutt í nýrri útgáfu í Hörpu í kvöld og annað kvöld, undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar.

Hópurinn sem flytur Þrymskviðu á æfingu í Neskirkju í vikunni, Guðmundur Karl, sem leikur Þór, er í forgrunni. Fréttablaðið/Eyþór

Þessu verki hreifst ég af 12 ára gamall þegar það var frumflutt í Þjóðleikhúsinu 1974. Fór þá einn míns liðs að horfa á óperuna af efstu svölum, stóð svo upp og ákvað að verða tónlistarmaður, alveg upptendraður,“ segir Gunnsteinn Ólafsson sem stjórnar tónlistarflutningi Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson í Norðurljósasal Hörpu í kvöld og annað kvöld. Þar koma fram átta einsöngvarar, Háskólakórinn og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Leikstjóri er Bjarni Thor Kristinsson.

Gunnsteinn segir Þrymskviðu nú flutta í tilefni af níræðisafmæli höfundarins Jóns Ásgeirssonar og 100 ára fullveldisafmæli Íslands. „Tilviljun réð því að ég varð nemandi Jóns Ásgeirssonar í tónsmíðum þegar ég var 16 ára gamall og hann hafði gríðarleg áhrif á mig. Hann hefur líka haft mikið að segja í okkar tónlistarlífi. Þetta verk hans, Þrymskviða, er alveg magnað og í því eru miklar sviptingar, auk þess að vera skemmtilegt. Jón er þekktur fyrir flottar laglínur en teygir sig líka langt í tónmálinu. Ég held að þessi ópera sé dálítið lykilverk á hans ferli, sú fyrsta íslenska sem samin var í fullri lengd eftir samkeppni sem var haldin í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar.“

Jón endurskrifaði óperuna árið 1997 að sögn Gunnsteins, stytti hana, tók út dansa og bætti inn aríum í staðinn. „Þetta er í raun frumflutningur þeirrar útgáfu,“ segir hann. „Lítil hlutverk urðu stærri, eins og hlutverk Loka og hlutverk Grímu, það er persóna sem hann býr til og á að vera systir Þryms jötuns.“

Svona er efninu lýst í fréttatilkynningu: Þór uppgötvar að hamar hans Mjölnir er horfinn! Þrymur þursadrottinn hefur rænt honum og heimtar Freyju í lausnargjald. Hún er ófáanleg til þess að fórna sér fyrir hamarinn svo Þór fer í kvenmannsgervi til Jötunheima að endurheimta vopn sitt í fylgd Loka Laufeyjarsonar.

Einsöngvarar eru Guðmundur Karl Eiríksson barítón sem Þór, Margrét Hrafnsdóttir sópran í hlutverki Freyju, Keith Reed bass-barítón syngur Þrym þursadrottin og Agnes Thorsteins mezzósópran er Gríma, systir Þryms. Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór er Heimdallur og Eyjólfur Eyjólfsson tenór syngur Loka.

Gunnsteinn hælir söngvurunum á hvert reipi, þeir eru flestir ungir og hann segir íslenska framtíð bjarta hvað söngvara varði. En verða bara þessar tvær sýningar? „Já, þær eru í Norðurljósasalnum og eru settar upp á svolítið óvenjulegan hátt, sviðið verður eins og rampur fram í salinn þannig að áhorfendur sitja umhverfis það. Svo er engin gryfja þannig að hljómsveitin er á sama gólfi og áheyrendur. Það komast samt um 400 manns á hvora sýningu og við vonum að bekkurinn verði þéttsetinn.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Margrét Þórhildur verður drottning

Tímamót

Jafnrétti sinnt í Kópavogi

Tímamót

Fjallað um hinn nýja reka á Hornströndum

Auglýsing

Nýjast

Íslenska óperan vígð með viðhöfn

Fyrsta konan kjörin íþróttamaður ársins

Fyrsti kafli tónverksins táknar eðlilegt hitastig

Hinsegin kórinn opinn fyrir alla með opinn huga

Frystihúsið Ísbjörninn hefur starfsemi

Lögbirtingablaðið verður 110 ára

Auglýsing