Venjulega held ég einkalífi mínu fyrir mig og þegar SodaStream kom með þá tillögu að Kelsey myndi líka vera með í myndskeiðinu var ég svolítið efins, en eftir einn eða tvo daga ákváðum við að láta slag standa. Kvikmyndatökuliðið var mjög afslappað og við hlógum mikið. Þetta var í fyrsta skipti sem Kelsey reyndi fyrir sér sem leikari og ég fékk þá tækifæri til að kynna fyrir henni þennan heim og gefa henni nokkur ráð. Það var dásamlegt að sjá hana vera með og hún studdi við bakið á mér,“ segir Hafþór.

Hann er hluti af auglýsingaherferð SodaStream sem efnt er til í tilefni af fyrsta apríl. Auglýsingin gengur út á að með því að nota sömu tækni og áður getur hver og einn sett SodaStream í baðkarið sitt og jafnvel vatnsrúmið. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hafþór vinnur með SodaStream.

Ásamt raunveruleikastjörnunni Reza Farahan kynna þau Hafþór og Kelsey „SodaSoak“ – sem er þróað út frá kolsýrutækjum SodaStream og getur myndað „ohmygush-loftbólur“ fyrir baðkör og vatnsrúm.

Þessi nýþróaða vara virkar sem viðbótaruppsetning og gerir það mögulegt fyrir notandann að bæta við súrefni og þar með loftbólum í baðkarið sitt. Hægt er að kaupa vöruna hjá GetSodaSoak.com á frábæru verði, með 98% afslætti.

„Ég naut þess virkilega að taka upp þetta myndskeið og ég vona að fólk skemmti sér yfir brandaranum,“ bætir Hafþór við.

Fyrirtækið var einnig ánægt með að vinna með íslensku stjörnunni. „Það er frábært að vinna með Hafþóri og við erum virkilega ánægð með að honum líkaði hvernig við nálgumst hlutina. Hafþór hefur einnig áhyggjur af plasti í náttúrunni og umhverfinu og hann elskar þegar við ráðumst á vandamálin á óhefðbundinn hátt og með heilmiklum húmor,“ segir Michele Fitzwilliams sem er markaðsstjóri SodaStream fyrir Norðurlöndin.