Þennan dag árið 2011 ógilti Hæstiréttur Íslands kosningar til stjórnlagaþings sem fram fóru þann 27. nóvember 2010. Að baki úrskurðinum lágu fimm annmarkar sem Hæstiréttur fann á framkvæmd kosninganna. 

Í fyrsta lagi var strikamerking kjörseðla með númeri í samfelldri hlaupandi töluröð sem dómarar töldu brjóta í bága við ákvæði laga um leynilegar kosningar. 

Í öðru lagi þóttu pappaskilrúm sem notuð voru til að aðskilja kjósendur ekki fullnægjandi. 

Í þriðja lagi voru kjósendur ekki látnir brjóta kjörseðla sína saman. 

Í fjórða lagi uppfylltu kjörkassar ekki skilyrði laga um að hægt væri að læsa þeim og í fimmta lagi skorti nærveru skipaðra fulltrúa til að fylgjast með framkvæmd kosninga. 

Þrátt fyrir að kosningarnar væru ógiltar var sama fólki og hlaut kjör í hinum ólöglegu kosningum boðið sæti í stjórnlagaráði sem skilaði uppkasti að stjórnarskrá seinna sama ár. Á meðal fulltrúa voru Illugi Jökulsson blaðamaður, Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður, Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar, og Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor.