„Þetta er í rauninni bók sem ég byrjaði að hugsa um fyrir sjö árum og var byrjaður að vinna í þá,“ segir rithöfundurinn og lögmaðurinn Kári Valtýsson um nýjustu bók sína, Kverkatak, sem gefin var út á dögunum af bókaútgáfunni Hringaná. „Ég skrifaði svo tvær bækur í millitíðinni en þessi bók var alltaf að malla í undirmeðvitundinni. Góðar hugmyndir eru þannig að maður gleymir þeim ekki þótt maður skrifi þær ekki niður.“

Vafasöm vegferð

Kári segist aldrei hafa verið ánægður með hvernig bókin kom út en ákvað fyrir tveimur árum að hugmyndin væri það góð að hann gaf sig allan í að skrifa hana alveg upp á nýtt. Hugmyndin að baki bókinni segir Kári vera klassísku spurninguna: „Hvað ef?“

„Mig langaði að skoða hvað gerist ef ráðsettur lögmaður í Vesturbænum kemur sér í vandræði, þarf að grafa lík og takast á við afleiðingar þess,“ segir hann. „Lesandinn fylgist með þessum lögfræðingi sem hefur í rauninni allt en er samt óánægður. Hann lendir reyndar í miklu áfalli í bókinni og í sorginni knýr grái fiðringurinn dyra. Þegar ung kona byrjar að vinna í fyrirtækinu þar sem hann vinnur tekur við vægast sagt vafasöm vegferð.“

Sum sé, miðaldra lögfræðingur á besta stað í lífinu sem leiðist út í tryllingslega myrka atburðarás. Þurfa vinir þínir og vandamenn að hafa einhverjar áhyggjur, Kári?

„Nei, það er ekki þannig, og sem betur fer byggir hann ekki á mér,“ segir Kári og skellir upp úr. „Í rauninni er það eina sem við eigum sameiginlegt að við erum báðir lögfræðingar og hann er jú líka frá Akureyri eins og ég. En sem betur fer stoppa okkar líkindi þar! Ég er í raun bara að stytta mér leiðir og skrifa um það sem ég þekki. Ef hann væri frá Raufarhöfn hefði ég þurft að setja mig inn í staðhætti þar. “

Harðsoðinn stíll

Með sálfræðitryllinum Kverkataki breytir Kári aðeins til frá fyrri verkum sínum, vestrunum Hefnd frá árinu 2018 og Heift frá 2019.

Eru þetta keimlík verk?

„Flæðið er kannski með svipaðri myndrænni áferð. Stíllinn er samt öðru vísi og útgefandi minn lýsti honum sem „harðsoðnum“,“ segir Kári. „Bókin er sögð í fyrstu persónu og í nútíð og það breytir strax aðeins hvernig sagan er sögð. En ég vona samt að stíllinn sé nógu svipaður til að fólk sjái hver hafi skrifað hana – að ég sé að finna mér einhvers konar rödd.“