Kreppan stóð sem hæst árið 1932. Atvinnuleysi var mikið og sár fátækt. Eftir mikinn átakafund þar sem slagsmál urðu ákvað bæjarstjórnin í Reykjavík að koma á atvinnubótavinnu þótt hún hefði áður þverneitað að taka upp slíkt fyrirkomulag.

Þegar líða tók á veturinn fór féð sem var ætlað til atvinnubótavinnunnar að verða uppurið. Bæjarstjórnin ákvað þá að lækka laun þeirra sem unnu atvinnubótavinnu. Verkalýðssinnar mótmæltu því og ákveðið var að efna til bæjarstjórnarfundar 9. nóvember í Góðtemplarahúsinu sem kallað var Gúttó.

Mikill mannfjöldi safnaðist saman fyrir utan húsið og áheyrendabekkir voru þétt setnir. Þegar sýnt þótti að bæjarstjórnin ætlaði ekki að skipta um skoðun varð háreysti á pöllunum. Ekki heyrðist mannsins mál og ákveðið var að slíta fundi. Upphófust þá heiftúðug slagsmál. Lögreglan var með mikinn mannskap auk hvítliða en hún mátti sín lítils gegn margnum og lagði á flótta. Lögreglumenn voru þá eltir uppi og barðir til óbóta. Um kvöldið ákvað ríkisstjórnin að veita fé til Reykjavíkurbæjar svo ekki þyrfti að lækka launin. Þeir sem höfðu sig mest í frammi í átökunum voru dæmdir í nokkurra mánaða fangelsi en fyrir þrýsting frá almenningi var ákveðið að skilorðsbinda dómana.