Það er bara eins og Gústi sé kominn. Hann stóð þarna á torginu í yfir 40 ár, predikaði og söng og gaf öllum miða með ritningarorðum,“ segir séra Vigfús Þór Árnason um styttu þá sem búið er að koma fyrir á Ráðhústorginu á Siglufirði og afhjúpuð verður klukkan 14 í dag og vígð.

Ágúst Gíslason hét hann, fæddist 1897 og dó 1985. „Móðir hans dó þegar hann var ungur en amma hans tók hann að sér og ól hann upp í góðum siðum, lét hann til dæmis lesa einn passíusálm á dag á föstunni, þannig sköpuðust trúarstefin,“ segir séra Vigfús og heldur áfram. „Svo hitti Gústi guð sinn á Akureyri og gerði samning, keypti bátinn Sigurvin, reri á honum í 40 ár og varði öllu sem hann þénaði til kristniboðs og góðverka. Studdi til dæmis 50 indíánabörn í Bólivíu frá því þau voru kornung, þegar hann dó höfðu mörg þeirra lokið stúdentsprófi.“

Styttan er steypt í brons af Ragnhildi Stefánsdóttur. Auk Vigfúsar stóðu þeir Kristján L. Möller, fyrrverandi ráðherra, og Hermann Jónasson framkvæmdastjóri fyrir gerð minnisvarðans. „Við eigum góða vildarvini,“ segir séra Vigfús. „Í fjölmennri Siglufjarðarmessu í Grafarvogskirkju fyrir nokkrum árum var hugmyndinni hreyft og allir stóðu upp og klöppuðu. Maður fann strax mikinn byr.“

Hann nefnir meðal annars Birki Baldvinsson og Pál Samúelsson sem hafi styrkt framtakið. „Þeir eru báðir Siglfirðingar sem misstu mæður sínar, þá voru ekki félagslegar stofnanir eins og núna, fólk stóð bara á klakanum kalda, þeir eru að þakka Siglfirðingum gamlar velgjörðir við sig.“

Séra Vigfús rifjar upp þegar Gústi guðsmaður týndist á sjónum, einu sinni sem oftar. „Allur siglfirski flotinn fór að leita og ég með, hann hafði verið týndur í þrjá daga. Við fundum hann utan við Siglunesið þar sem öldurnar voru eins og fimm hæða blokkir og hann hvarf ofan í dalina en skaust upp aftur. Þegar hann sá okkur stóð hann upp og söng Hærra minn Guð til þín, sama lag og sungið var um borð í Titanic. Hann vildi ekki hjálp. Nokkru síðar lygndi og þá kom hann í land og sagði: Guð sér um sína.“

gun@frettabladid.is