Nú kveðjum við okkar góða og gamla vin Gunna sem fengið hefur hvíldina. Það er huggun harmi gegn að Gunni hefur fengið hvíldina eftir þessi erfiðu veikindi. Við æskuvinirnir höfum verið samferða svo lengi. Það er því ekki ofsögum sagt að nú sé skarð komið í vinahópinn það er víst óumflýjanlegt. En minningarnar lifa, þær ylja og við eigum þær, minningar um góðan dreng sem setti svip sinn á vináttu okkar.

Það var ýmislegt brallað á okkar yngri árum. Oft fór vinahópurinn sem var nokkuð stór hópur á þessum árum, saman í ferðalag á sumrin. Þá var grillað og leikið sér. Þessi hópur gat skemmt sér vel saman og var oft mikið fjör fram eftir allri nóttu. Ferðirnar upp í Þórsmörk eru mjög minnisstæðar. Þórsmörk var eiginlega okkar staður, þar gátum við gleymt okkur og verið í okkar heimi. Gunni var að sjálfsögðu með myndavélina með sér. Gunni hafði hið listræna auga ljósmyndarans og gat nýtt sér tæknina til að töfra fram heillandi myndir og form. Gunni var tæknigaurinn í hópnum. Öll tækni lá mjög vel fyrir honum og hin ýmsu forrit virtust leika í höndunum á honum. Gunni hafði skoðanir á flestu og hann hafði gaman af því að tala. Hann var mikill sögumaður og var gaman að sjá hve hann naut sín þegar hann sagði frá. Sögurnar voru alltaf betri þegar hann sagði frá og ekki spillti fyrir skemmtilegt og á stundum framandi orðfæri hans. Í okkar vinahópi voru tvær reglur sem Gunni mat mikils, það var ein sumarútilega á hverju sumri og svo jólaboð vinanna, sem var örugglega að frumkvæði Gunna og Ingu. Annars var þessi hópur lítið gefinn fyrir reglur endar reyndum við eins og við gátum að synda á móti straumnum, vera öðruvísi, vera uppreisnargjarnir og vera pönkarar. En inn við beinið vorum við bara mömmustrákar. Við vorum bara ungir drengir leitandi að tilgangi lífsins.

Við sem þetta skrifum tókum upp á því fyrir um átta eða níu árum að hittast reglulega heima hjá hvor öðrum og spila Bridds. Þetta hafa verið okkar bestu stundir alla tíð síðan. Maður velti því stundum fyrir sér hvort Briddsið hafi ekki verið yfirskin því það var svo gaman að hittast og koma saman. Við höfðum ekkert breyst. Þarna endurnýjuðum við vinskapinn með sérstökum hætti því við vorum eins og litlir strákar sem hlakka til að fara saman út að leika. En framfarir í spilamennskunni urðu litlar sem engar. Þetta hefur gefið okkur svo mikið. Eftir að Gunni veiktist gerðum við okkar besta til að hvetja hann áfram og við fórum til hans að spila. Við héldum áfram að hittast hjá Gunna á hjúkrunar­heimilinu og spjalla. Við töluðum oft um að fara út með hjólastólinn, út að keyra, fara í ísbíltúr, fara upp í sveit að sumarlagi, fara og gera allt vitlaust en af því gat ekki orðið en svakalega var gaman að eiga þennan sameiginlega draum með Gunna okkar.

Elsku Inga, Hilmar, Hrannar, Hrafnkell og Hildur innilegar samúðarkveðjur til ykkar sem og allrar fjölskyldu Gunna. Við eigum svo margar góðar minningar sem við getum huggað okkur við um ókomna tíð.

Böðvar, Eyjólfur og Helgi