Gunni bróðir er dáinn, þetta er eitthvað sem maður vildi aldrei heyra en komst ekki hjá. Skyndilegt fráfall Gunna þriðjudaginn 25. sept sl. á Spáni kom okkur í opna skjöldu eins og öllum hans nánustu ættingjum og vinum. Gunni var staddur á Spáni þennan örlagaríka dag með föður okkar og hafði dvalið þar í þrjá mánuði.

Gunni kláraði framhaldsskóla í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og lá leiðin í Iðnskólann þar sem hann lærði húsasmíði og var á samning hjá Andrési frænda föðurbróður okkar. Húsasmíði átti vel við hann og fékk hann síðar réttindi sem húsasmíðameistari. Hann var hjálplegur öllum sem þurftu á aðstoð að halda, útsjónarsemi og lausnir voru hans sérsvið. Hann var duglegur að hjálpa foreldrum okkar við að byggja þeirra einbýlishús á sínum tíma.  Var alla tíð greiðvikinn og hjálpsamur.

Gunni stundaði knattspyrnu með Fram á árum áður og þótti liðtækur á þeim velli,  spilaði þar upp alla yngri flokka félagsins.  Við vorum báðir Man-Un aðdáendur og fyrirhuguð var ferð á Enska boltann með yngri bróður okkar og föður, sem reyndar er Chelsea aðdáandi en kann samt að meta góða knattspyrnu. Við munum fara þessa ferð og hugsum þá hlýtt til þín Gunni minn.

Gunni var byggingameistari á okkar sumarbústað á Flúðum og sagði við okkur Guðrúnu þegar við vorum að byggja, að það væri ekkert vit í annað en að hækka veggina og stækka húsið, það yrði mun reisulegra hús ef það yrði gert.  Þetta gerðum við og verðum við honum ævinlega þakklát fyrir þá útsjónarsemi og lausn,  en hann sá lausnir sem aðrir sáu ekki og fékk hugmyndir sem virkuðu. Gunni mundi alltaf eftir brúðkaupsdegi okkar Guðrúnar, hann hringdi alltaf í okkur, og mætti ávallt með blóm og gjafir.  Ef við vorum ekki heima þá beið blómvöndur okkar við útihurðina.

Ég á mörg minningabrot frá tíma okkar saman, bæði æskuminningar og svo minningar frá síðustu æviárum Gunna bróður. Þær minningar á ég og mun ávallt geyma hjá mér. Við munum  alltaf minnst Gunna vel og fallega og hans verður sárt saknað af okkur og okkar fjölskyldu.  Afabörnin munu klárlega sakna afa síns mikið því alltaf var glens og gaman þegar afi var á staðnum.

Ég reikna með að þú fylgist með okkur af himni ofan, ég vona að Guð sé með næg verkefni handa þér svo þú getir haft eitthvað fyrir stafni. Ég veit fyrir víst að þú ert farinn að huga að framkvæmdum í himnaríki, þar eru víst bestu lóðirnar og nægt byggingarrými. Gangi þér vel á þessum nýja stað Gunni minn og við munum ávallt geyma góðar minningar um þig í hjarta okkar.

Guðlaugur Guðlaugsson (Gulli) & Guðrún Pétursdóttir