Árið 1977 sendi NASA geim­förin Voya­ger 1 og 2 af stað til þess að kanna sól­kerfið okkar og senda gögn aftur til jarðar. Á­fastar á báðum geim­förunum voru Gull­plöturnar svo­nefndu, þar sem finna mátti mynd- og hljóð­efni sem ætlað var að kynna jörðina og menningu mann­fólksins fyrir mögu­legu lífi í geimnum.

Á laugar­daginn hefst verk­efnið Gull­platan í Hörpu sem er inn­blásið af skila­boðunum sem send voru 1977. Þar verður boðið upp á fjöl­breyttar list­smiðjur þar sem börnum á Ís­landi býðst að velja efni á sína eigin gull­plötu. Verk­efnið mun þaðan ferðast um landið milli grunn­skóla og lýkur loks með gjörningi á Barna­menningar­há­tíð 2023.

Dag­skráin í Hörpu á laugar­dag verður fjöl­breytt en þar býðst börnum meðal annars að gera sínar eigin mynda­sögur, tón­list og geim­veru­grímur. Þá mun Sæ­var Helgi Braga­son, einnig þekktur sem Stjörnu-Sæ­var, fræða gesti um Gull­plötuna frá árinu 1977.

„Ég ætla að spila nokkur hljóð­dæmi af plötunni og leyfa fólki að setja sig í spor geim­veranna svo það veit ekki hvað það er að hlusta á,“ segir Sæ­var Helgi. „Þá geta þau upp­lifað það sama og geim­verurnar, ef ein­hverjar þeirra finna nokkurn tíma plötuna.“

Halldór Baldursson, skopmyndateiknari Fréttablaðsins, stýrir myndasögusmiðju fyrir börnin.
Mynd/Halldór Baldursson

Hug­myndin að baki Gull­plötunni árið 1977 ein­kenndist af bjart­sýni og stolti þeirra, sem að verk­efninu komu, yfir jörðinni og mann­kyns­sögunni. Mikil vinna var lögð í að velja hvaða efni rataði á plötuna.

„Það var hópur vísinda­manna og lista­fólks sem kom að plötunni undir for­ystu stjörnu­fræðingsins Carl Sagan,“ út­skýrir Sæ­var Helgi sem segir að vanda hafi þurft valið þegar kom að efnis­tökum. „Það var til dæmis á­kveðið að senda kveðjur frá 56 tungu­málum, hljóð frá hvölum og öðrum dýrum, náttúru­hljóð og eins konar rit­gerð sem lýsir sköpun jarðar og sögu hennar til geim­aldarinnar þar til platan var send.“

Á plötunni var líka tón­list og var þess gætt að hún væri ekki bara vest­ræn.

„Þarna má finna tón­list frá öllum heims­hornum, allt frá Bach og Mozart yfir í Johnny B Goode með Chuck Berry. Við ætlum að velta að­eins fyrir okkur hvað við sjálf myndum senda á okkar eigin plötu.“

Dag­skráin á laugar­dag stendur yfir milli klukkan 11 og 13 og má nálgast í heild sinni á gull­platan.is.

Sæ­var Helgi Braga­son, einnig þekktur sem Stjörnu-Sæ­var, mun fræða gesti um Gull­plötuna frá árinu 1977 í Hörpunni á laugardaginn.
Mynd/Aðsend