Á morgun, fyrsta sunnudag aðventunnar, hefst nýtt kirkjuár með tilheyrandi jólaföstu. Pétur Þorsteinsson, prestur í Óháða söfnuðinum, hefur þann sið á að á gamlársdegi kirkjuársins býður hann í tilhleypingateiti í prestssetrinu fyrir svokallaða guðsgeldinga – þá sem eru af einhverri ástæðu ógiftir og ekki í sambandi.

„Við vorum einhvern tímann í Þórsmörk fyrir svona þrjátíu til fjörutíu árum í byrjun aðventunnar. Í framhaldi voru menn að kvarta undan því að guðsgeldingarnir væru aldrei að hittast,“ útskýrir Pétur. „Ég hef nú boðið þessum guðsgeldingum í veislu til mín ár hvert síðan þá.“

Í veislurnar mætir iðulega fjölbreyttur hópur fólks til að smakka á kökum og kaffi.

„Ég þekki ekki alla sem koma og það er ákveðinn léttleiki yfir þessu öllu saman,“ segir Pétur. „Þetta guðsgeldingagengi sem hingað kemur getur svo horft á hina og skoðað hvert annað.“

Tilhleypingateitið svokallaða er tilkomið af því að hrútum í sveitinni er hleypt út á þessum tíma líkt og Pétur hleypir guðsgeldingunum út meðal fólks.

Gestabókin til bjargar

Hefur eitthvað orðið úr fundum fólks sem hittist í þessum teitum?

„Já, já! Það er hér fólk sem ég gifti til að mynda og eiga þrjú undaneldi í dag, en þau hittust einmitt í einu boðinu,“ segir Pétur stoltur. „Svo hafa nú menn hist þar fyrir utan. Ég man eftir einum sérstaklega sem var svo orkumikill. Hann kom daginn eftir því hann náði ekki réttu nafni á stelpunni sem hann var að tala við svo hann fékk að koma og skoða í gestabókina!“

Gestabókin bjargaði þannig verðandi ást frá glötun. Pétur býst við að kvöldið gæti ílengst aðeins fram undir morgun þar sem fólk sé orðið hrætt við það sem hann kallar Fullukallafélagið.

„Það er orðin ansi mikil orka og elja í því, svo menn halda sig kannski heima fyrir og sleppa því að fara niður í bæ,“ segir hann. „Hér elska allir friðinn og strjúka kviðinn!“