Guðrún Ásta var fædd í Þórukoti, Ytri-Njarðvík, 9. febrúar 1937. Gunna Ásta, eins og hún var kölluð, lést á Hrafnistu, Nesvöllum, í Njarðvík, 3. júní s.l.

Foreldrar Gunnu Ástu voru Björn Þorleifsson, bóndi og útvegsbóndi í Þórukoti, fæddur 13. október 1884 í Innri-Njarðvíkum, dáinn 24. september 1968 og kona hans Guðlaug Stefánsdóttir, fædd 15. nóvember 1897 í Stardal, Stokkseyrarhreppi, dáin 1. janúar 1981.

Systkin Gunnu Ástu eru 1) Þorleifur Kristinn, fæddur 24. janúar 1926, dáinn 24. mars 1991. 2) Gróa, fædd 1. september 1928, dáin 17. ágúst 1943. 3) Stefán fæddur 10. mars 1930. 4) Þórir Vignir, fæddur 24. ágúst 1933.

Gunna Ásta giftist 16. júlí 1955 Hreini Bergmanni Óskarssyni, húsasmíðameistara, fæddur 26. nóvember 1935. Börn þeirra eru: 1) Gróa, fædd 17. febrúar 1956, maki Guðmundur Kr. Sigurðsson, fæddur 2. nóvember 1948, dáinn 3. maí 2016, þau skildu. Börn þeirra eru Sigurður Halldór, Guðmundur Óskar, Hreinn Gunnar, Gylfi Björgvin og Harpa Sól. 2) Sigurður Ingibergur, fæddur 16. febrúar 1958, maki Sigrún Júlíusdóttir, fædd 10. janúar 1961. Dætur þeirra eru Guðrún Sara og Guðlaug Ósk. 3) Óskar Jón, fæddur 21. apríl 1962, dáinn 23. ágúst 2017, maki Karen Öder Magnúsdóttir, þau voru barnlaus. Börn Óskars með barnsmóður hans, Jóhönnu Helgadóttur, eru Helgi Hreinn og Dóra Lilja. Óskar var kvæntur Ingibjörgu Þorsteinsdóttur, þau skildu.

Gunna Ásta ólst upp í Þórukoti og stundaði nám í barnaskóla Ytri-Njarðvíkur. Haustið 1952 var Gagnfræðaskólinn í Keflavík stofnaður með aðkomu Njarðvíkurhrepps og fóru þá unglingar úr Njarðvíkum til gagnfræðanáms í Keflavík. Gunna Ásta var einn vetur í gagnfræðaskólanum en haustið 1953 hóf hún nám í húsmæðraskólanum á Staðarfelli þar sem hún naut sín við hannyrðir og önnur húsmæðrastörf.

Gunna Ásta tók að sér í mörg ár að sjá um veislur og mannfagnaði og sá um að leggja til veisluföng sem góður rómur var gerður að.

Gunna Ásta vann sín fyrstu starfsár við afgreiðslustörf m.a. í Ingimundarbúð og Friðjónskjöri.

Árið 1973 hóf hún störf hjá mötuneyti Varnarliðsins og var fljótlega skipuð verkstjóri. Síðar varð hún gjaldkeri og aðstoðarmaður matreiðslumanns í bandaríska barnaskólanum og síðar í bandaríska gagnfræðaskólanum, þar til hún lét af störfum árið 2005, eða eftir 32 ára starf.

Skátastarfið átti hug og hjörtu Gunnu Ástu alla tíð og starfaði hún innan hreyfingarinnar sem flokks- og sveitarforingi í kvenskátafélaginu Brynju. Við sameiningu Brynju við drengjaskátafélagið Áfram, árið 1957, varð til skátafélagið Víkverjar og starfaði Gunna Ásta þar m.a. sem flokks-, sveitar- og félagsforingi. 1987 gerðist Gunna Ásta félagi í skátagildinu í Keflavík og var kjörinn Gildismeistari 1997 sem hún sinnti í áratug.

Gunna Ásta verður jarðsungin frá Ytri-Njarðvíkurkirkju, þriðjudag 25. júní og hefst athöfnin kl. 13.00