Það var mikilvægur hlekkur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að fá loks æðsta dómsvald í eigin málum með stofnun Hæstaréttar árið 1920. Því fer þó fjarri að þeim tímamótum hafi verið tekið fagnandi af landsbúum öllum, eins og sagnfræðingurinn Arnþór Gunnarsson komst að við ritun sögu Hæstaréttar sem kemur nú út í veglegri bók í útgáfu Hins íslenska bókmenntafélags.

„Það kom mér á óvart hvernig tekið var á móti Hæstarétti. Það var þetta vantraust alveg frá upphafi,“ segir Arnþór inntur eftir því hvort eitthvað og þá hvað hafi komið honum helst á óvart við rannsóknir sínar á sögu Hæstaréttar. Hann segir mótstöðuna við réttinn hafa að miklu leyti átt uppruna sinn hjá stjórnmálamönnum af vinstri vængnum en hann hafi ekki fundið viðlíka vantraust á æðsta dómsvaldinu fyrir þann tíma.

„Þannig að Hæstiréttur verður pólitískt bitbein, án þess að hafa skipt sér af pólitík,“ segir Arnþór

Fremstur í flokki í baráttunni um Hæstarétt fór sjálfur dómsmálaráðherra þess tíma, Jónas frá Hriflu. „Þessar árásir Jónasar og fylgismanna hans á réttinn, það kom mér á óvart hvað þær voru harðar og langvarandi,“ segir Arnþór en í bókinni kemur fram að „baráttan um Hæstarétt" hafi verið harðari en önnur sagnfræðirit hafi vitnað um hingað til.

Hún snerist ekki síst um sjálfstæði dómsvaldsins sem hafi ekki verið sérlega vel tryggt í stjórnarskrá þess tíma. Fyrir vikið „gat dómsvaldið verið berskjaldað fyrir ágengni stjórnmálamanna sem báru takmarkaða virðingu fyrir valdmörkum,“ að því er fram kemur í bókinni (sjá síðu 458).

Arnþór segir að á þessum tíma hafi andúð í garð Hæstaréttar fyrst og fremst komið frá stjórnmálastéttinni. „Ég er ekki viss um að fólk sem kaus, þá flokka sem fremstir fóru í þessu, hafi haft sérstaka ástæðu til að hatast við Hæstarétt. Að einhverju leyti var um að ræða fálæti en undir eðlilegum kringumstæðum hefði þjóðin átt að taka réttinum fagnandi,“ segir hann.

Mörg mál Hæstaréttar eru minnisstæð. Hér eru málflytjendur svokallaðra Baugsmála, Sigurður Tómas Magnússon, Gestur Jónsson, Brynjar Níelsson og Jakob Möller.
Fréttablaðið/GVA

Þá kemur einnig fram að þessar deilur um Hæstarétt eigi sér enga hliðstæðu á Norðurlöndunum. Hins vegar megi greina hliðstæðu í samtímanum til dæmis í stjórnarfarsbreytingum í Póllandi, Ungverjalandi og jafnvel í Tyrklandi og Ungverjalandi.

Aðspurður um hvaða ástæður gætu verið þarna að baki segir Arnþór að þarna hafi náttúrulega verið að einhverju leyti barátta um vald. „Við erum komin með þetta dómsvald í okkar hendur, einn af þremur helstu valdþáttum ríkisvaldsins og þá hefst í rauninni kannski barátta um það og um hver eigi að hafa það í hendi sér.“

Vilmundi fylgdi ferskur blær

Arnþóri er tíðrætt um fleiri stjórnmálamenn sem höfðu horn í síðu Hæstaréttar: „Ungur stjórnmálamaður, Vilmundur Gylfason, gekk harðast fram af þeim sem gagnrýndu Hæstarétt og dómskerfið en hann beindi jafnframt spjótum sínum að pólitískri samtryggingu og rótgróinni kerfislægri hugsun. Hann fullyrti að Hæstiréttur væri varðhundur kerfisins en ekki vörn fólksins,“ segir á síðu 461 í bókinni.

„Ég notaði Vilmund svolítið sem samfélagsspegil, til að opna inn á samfélagið á þeim tíma þegar allt er að brotna upp og mér fannst að Vilmundi fylgdi ferskur blær.“

Þjóðarspegill

Í inngangi ritsins segir Arnþór dómaframkvæmd Hæstaréttar endurspegla og veita innsýn í þjóðfélagið og meðal markmiða ritsins sé að varpa ljósi á tengsl samfélagsins og dómstólsins. Sem dæmi finni Hæstiréttur strax fyrir því þegar fjárhagsvandræði aukist í samfélaginu. Þá fjölgi dómsmálum sem rekja megi til þeirra. Sama megi segja um aukna áfengis- og fíkniefnaneyslu og opnari umræðu um kynferðisbrot.

Á undanförnum árum hafa Íslendingar í mjög auknum mæli lagt traust sitt á Mannréttindadómstól Evrópu og við lestur bókar Arnþórs vaknar sú spurning hvort vantraust á innlendu dómsvaldi sé ef til vill enn þann dag í dag af sömu rótum sprottin og Hæstiréttur fann fyrir í upphafi.

Arnþór segir vel þess virði og áhugavert að velta svona spurningum upp og þetta traust á Mannréttindadómstólnum sé áhugavert. „Ekki síst í ljósi þess að í okkar samfélagi er líka tortryggni gagnvart ýmsum evrópskum stofnunum, Evrópusambandinu og og Evrópusamvinnu. Þarna eru þá líka ákveðnar þverstæður sem þyrfti að skýra.“

Mál sem rýrðu traust til réttarins

Í bók Arnþórs er kafli um traust til dómstóla og raktar bæði innlendar og samevrópskar kannanir á trausti Íslendinga til innlendra dómstóla. Staðreyndin er sú að Íslendingar treysta dómstólum sínum verr en nágrannar okkar á Norðurlöndum treysta sínum dómstólum. Í bókinni er meðal annars rakið hvernig tortryggni Íslendinga í garð innlendrar valdastéttar hefur verið viðloðandi í samfélaginu frá því fyrir stofnun Hæstaréttar, ekki síst vegna þess að „allar götur síðan Íslendingar fengu heimastjórn hafa stöðuveitingar, frændhygli og vinargreiðar undir pólitískum formerkjum tíðkast,“ eins og segir í bókinni (bls. 456).

Frá upphafi Geirfinnsmálsins.

Orðspor dómstóla og einstakra dómara markist líka af störfum þeirra og athöfnum. Áfengiskaupamálið, starfskjaramálið ollu til dæmis hneykslun. Þá hafi dómaframkvæmd líka áhrif á traust almennings. Þannig sé víst að „niðurstaðan í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu árið 1980 hefur fylgt réttarkerfinu eins og skuggi alla tíð síðan,“ eins og segir í bókinni (bls. 453). Einnig er nefnd dómaframkvæmd í málum sem varða ofbeldi gegn konum, einkum frá þeim tíma sem mjög hallaði á konur í réttinum.