John Ronald Reuel Tolkien fæddist þann 3. janúar 1892 í smá­bænum Bloem­fon­tein í Suður-Afríku. For­eldrar hans voru enskir en faðir hans, Arthur, hafði fengið þar starf í úti­búi bankans sem hann starfaði hjá. For­eldrarnir eignuðust annan son 1894 en móðir drengjanna, Mabel, fór með þá heim til Eng­lands ári síðar. Arthur varð eftir í Bloem­fon­tein en lést stuttu síðar eftir veikindi.

Á Eng­landi kenndi Mabel drengjunum sjálf og var Tolkien náms­fús drengur. Hann lærði snemma að lesa og hafði sterkar skoðanir á þeim ævin­týra­heimum sem hann kynntist í gegnum barna­bók­menntir. Mabel lést árið 1904 og fluttu drengirnir þá til móður­systur sinnar í Birming­ham. Þar kynntist Tolkien stúlkunni Edith Bratt sem varð síðar eigin­kona hans.

Eftir að hafa byrjað að nema klassísk fræði við Exeter-há­skólann í Ox­ford skipti Tolkien yfir í ensku og bók­menntir. Hann út­skrifaðist frá skólanum með fyrstu ein­kunn 1915. Fyrri heims­styrj­öldin hafði brotist út árið áður og fór Tolkien beint í æfinga­búðir eftir út­skrift og þaðan til Frakk­lands, en hann tók sér þó tíma til að giftast Edith áður en hann hélt út. Eftir fimm mánuði á víg­stöðvunum var hann fluttur aftur til Eng­lands vegna veikinda.

Í holu í jörðinni …

Eftir að stríðinu lauk vann Tolkien ýmis fræða­störf, meðal annars sem kennari. Það var snemma á fjórða ára­tugnum, þar sem hann var við störf í Pem­broke-há­skólanum að fara yfir rit­gerðir, að hann fann auða síðu. Tolkien lýsti því síðar að hann hefði fengið skyndi­legan inn­blástur og skrifað á síðuna orðin „Í holu í jörðinni bjó hobbiti“. Hann hófst í kjöl­far handa við að skrifa Hobbitann sem gefinn var út 1937 og hlaut góðar við­tökur meðal les­enda og gagn­rýn­enda.

Fram­haldið af Hobbitanum sem Tolkien hafði ætlað sér að skrifa varð þó tals­vert um­svifa­meira. Drögin að hand­ritinu breyttust oft og hafði Tolkien lítinn tíma til að skrifa vegna starfa sinna og gafst hann einu sinni upp á verk­efninu. Það var ekki fyrr en árið 1954 sem Föru­neyti hringsins, fyrsti hluti Hringa­dróttins­sögu, var gefið út. Þrátt fyrir blendnar við­tökur í fyrstu urðu bækurnar gríðar­lega vin­sælar og mótandi fyrir bók­mennta­sögu 20. aldar.

Tolkien hélt á­fram að skrifa og sendi frá sér fjölda bóka áður en hann lést 2. septem­ber 1973. Nokkur af ó­kláruðum verkum hans, á borð við Sil­merilinn, voru síðar gefin út af fjöl­skyldu hans.

Greiddi veg fantasíunnar

„Tolkien byrjaði seint að skrifa bækurnar. Við undir­búnings­vinnuna gerði hann alls konar glósur og rit­gerðir sem voru nánast eins og bland í poka af sögum og goð­sögnum víðs vegar frá Evrópu,“ segir Stefán Pet­ters­son sem hefur verið for­fallinn að­dáandi verka Tolkien frá því að hann var barn. „Honum tókst að safna saman mjög miklu af efni um þennan stóra og metnaðar­fulla heim sem varð hálf­gerður neisti fyrir aðra höfunda til að hella sér í fanta­síuna. Hann hafði rosa­leg á­hrif á það hvernig fólk hugsar um fantasíur.“

Bækur Tolkien hafa í gegnum árin verið nýttar í alls konar popp­kúltúr á borð við ó­dauð­legan kvik­mynda­þrí­leik Peter Jack­son. Ný­lega fram­leiddi Amazon þættina Rings of Power, dýrustu þátta­röð sem gerð hefur verið, sem féll mis­vel í kramið hjá fólki.

„Ég held að svo lengi sem Tolkien esta­te er með puttana í þessu þá sé þetta í á­gætis höndum,“ segir Stefán. „Mér leist að mörgu leyti vel á Rings of Power þótt þeir væru ekki full­komnir. Þeir fóru nýja og sér­staka leið til að sækja í Tolkien-andann og ég veit að höfundar þeirra taka gagn­rýni mjög al­var­lega. Ég myndi segja að ég væri svona þokka­lega bjart­sýnn á þetta.“