John Ronald Reuel Tolkien fæddist þann 3. janúar 1892 í smábænum Bloemfontein í Suður-Afríku. Foreldrar hans voru enskir en faðir hans, Arthur, hafði fengið þar starf í útibúi bankans sem hann starfaði hjá. Foreldrarnir eignuðust annan son 1894 en móðir drengjanna, Mabel, fór með þá heim til Englands ári síðar. Arthur varð eftir í Bloemfontein en lést stuttu síðar eftir veikindi.
Á Englandi kenndi Mabel drengjunum sjálf og var Tolkien námsfús drengur. Hann lærði snemma að lesa og hafði sterkar skoðanir á þeim ævintýraheimum sem hann kynntist í gegnum barnabókmenntir. Mabel lést árið 1904 og fluttu drengirnir þá til móðursystur sinnar í Birmingham. Þar kynntist Tolkien stúlkunni Edith Bratt sem varð síðar eiginkona hans.
Eftir að hafa byrjað að nema klassísk fræði við Exeter-háskólann í Oxford skipti Tolkien yfir í ensku og bókmenntir. Hann útskrifaðist frá skólanum með fyrstu einkunn 1915. Fyrri heimsstyrjöldin hafði brotist út árið áður og fór Tolkien beint í æfingabúðir eftir útskrift og þaðan til Frakklands, en hann tók sér þó tíma til að giftast Edith áður en hann hélt út. Eftir fimm mánuði á vígstöðvunum var hann fluttur aftur til Englands vegna veikinda.
Í holu í jörðinni …
Eftir að stríðinu lauk vann Tolkien ýmis fræðastörf, meðal annars sem kennari. Það var snemma á fjórða áratugnum, þar sem hann var við störf í Pembroke-háskólanum að fara yfir ritgerðir, að hann fann auða síðu. Tolkien lýsti því síðar að hann hefði fengið skyndilegan innblástur og skrifað á síðuna orðin „Í holu í jörðinni bjó hobbiti“. Hann hófst í kjölfar handa við að skrifa Hobbitann sem gefinn var út 1937 og hlaut góðar viðtökur meðal lesenda og gagnrýnenda.
Framhaldið af Hobbitanum sem Tolkien hafði ætlað sér að skrifa varð þó talsvert umsvifameira. Drögin að handritinu breyttust oft og hafði Tolkien lítinn tíma til að skrifa vegna starfa sinna og gafst hann einu sinni upp á verkefninu. Það var ekki fyrr en árið 1954 sem Föruneyti hringsins, fyrsti hluti Hringadróttinssögu, var gefið út. Þrátt fyrir blendnar viðtökur í fyrstu urðu bækurnar gríðarlega vinsælar og mótandi fyrir bókmenntasögu 20. aldar.
Tolkien hélt áfram að skrifa og sendi frá sér fjölda bóka áður en hann lést 2. september 1973. Nokkur af ókláruðum verkum hans, á borð við Silmerilinn, voru síðar gefin út af fjölskyldu hans.
Greiddi veg fantasíunnar
„Tolkien byrjaði seint að skrifa bækurnar. Við undirbúningsvinnuna gerði hann alls konar glósur og ritgerðir sem voru nánast eins og bland í poka af sögum og goðsögnum víðs vegar frá Evrópu,“ segir Stefán Pettersson sem hefur verið forfallinn aðdáandi verka Tolkien frá því að hann var barn. „Honum tókst að safna saman mjög miklu af efni um þennan stóra og metnaðarfulla heim sem varð hálfgerður neisti fyrir aðra höfunda til að hella sér í fantasíuna. Hann hafði rosaleg áhrif á það hvernig fólk hugsar um fantasíur.“
Bækur Tolkien hafa í gegnum árin verið nýttar í alls konar poppkúltúr á borð við ódauðlegan kvikmyndaþríleik Peter Jackson. Nýlega framleiddi Amazon þættina Rings of Power, dýrustu þáttaröð sem gerð hefur verið, sem féll misvel í kramið hjá fólki.
„Ég held að svo lengi sem Tolkien estate er með puttana í þessu þá sé þetta í ágætis höndum,“ segir Stefán. „Mér leist að mörgu leyti vel á Rings of Power þótt þeir væru ekki fullkomnir. Þeir fóru nýja og sérstaka leið til að sækja í Tolkien-andann og ég veit að höfundar þeirra taka gagnrýni mjög alvarlega. Ég myndi segja að ég væri svona þokkalega bjartsýnn á þetta.“