Sumarið í sveitinni er nýútkomin bók, ætluð sem ferðafélagi fjölskyldna á leið um landið. Í henni eru spurningar, svör og fróðleikur um íslensku húsdýrin. Blýantsteikningar eru eftir Jón Ágúst Pálmason en höfundar bókarinnar eru Guðjón Ragnar Jónasson kennari og Harpa Rún Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur, skáld og bóndi.

„Það var Guðjón sem hratt þessu verkefni af stað. Þar mætast í honum sveitamaðurinn og kennarinn – einlægur áhugi á því að gera sveitina aðgengilega börnum,“ segir Harpa Rún. Sjálf kveðst hún samdauna þeim heimi sem bókin fjallar um, því hafi hún ekki áttað sig fyrr á þörfinni á að miðla honum. „Ég held að Guðjón hafi hringt á nýársdag í vetur og fljótlega hófumst við handa. Guðjón á megnið af spurningunum, ég á einhverja texta. Það er fínt að vinna með honum því hann er hugmyndavél og segir, „gerum þetta … og gerum þetta …“ og er þá búinn með helminginn. Svo gat ég fyllt upp í, lagað til og tekið út ættfræðispurningar! Við erum ágætt teymi.“

Róleg landslagslæti eftir Karen Björgu.Myndir/aðsendar

En dugði Hörpu Rún eigin hugarheimur eða þurfti hún að fletta einhverju upp? „Já, það var ýmislegt sem ég vissi ekki, hér hafa til dæmis aldrei verið svín eða geitur. Ég er heldur ekki með þjóðsagnaskepnur á hlaðinu hjá mér – sé þær að minnsta kosti ekki, en margar þeirra eru húsdýr og við fjöllum um þær. Við þurftum að grúska til að gera efnið fjölbreytt. Svo fengum við góðan teiknara sem gaf efninu svipinn sem við vorum að leita að, svolítið gamaldags en samt lifandi.“