Mér er mikill heiður að hafa fengið að koma þessum stórkostlegu tónverkum í flutning hér á landi. Þrjú þeirra hafa ekki heyrst hér áður og tónskáldin hafa verið gersamlega óþekkt,“ segir tónlistarkonan Hallfríður Ólafsdóttir um tónlist sem Sinfóníuhljómsveit áhugamanna flytur í Seltjarnarneskirkju klukkan 16.00 á morgun, undir stjórn Hallfríðar.

Þrjú verkanna á efnisskránni eru eftir konur og það þriðja eftir þeldökkan karl, öll samin á 18. og 19. öld. Þetta eru forleikur eftir Fanny Mendelssohn, fiðlukonsert eftir Joseph Bologne, Andante fyrir klarínett og hljómsveit eftir Alice Mary Smith og Sinfónía nr. 7 eftir Emilie Mayer. Forleikur Fanny Mendelssohn er hið eina sem hefur hljómað hér á landi áður.

Hallfríður telur tónskáldin hafa notið nokkurrar velgengni í lifanda lífi en síðan hafi verk þeirra gleymst. „Mér finnst alveg magnað að uppgötva að til séu sinfóníur frá rómantíska tímanum eftir tónskáld sem ég hafði aldrei heyrt um, þrátt fyrir mikla menntun og áratuga starf í sinfóníska heiminum. Risa hljómsveitarverk – flott músík, samin í klassískum stíl, tónmál sem allir þekkja.“

Með grúski á netinu kveðst Hallfríður hafa áttað sig á að mun meira sé til af klassískri tónlist eftir konur en margur haldi. „Það er fullt af frábæru efni sem er verið að grafa upp núna og það er virkilega spennandi og ánægjulegt en á sama tíma er ég svolítið foj yfir því að þessari tónlist hafi verið haldið frá mér svona lengi. Hver er ástæðan? Það er ljóst að einungis tónlist eftir hvíta karlmenn hefur verið haldið á lofti eftir þeirra dag.“

Á tónleikunum í Seltjarnarneskirkju leikur Guðbjartur Hákonarson einleik í fiðlukonsertinum og í verki Alice Mary Smith leikur Ármann Helgason einleik á klarínett. Hallfríður stjórnar, eins og áður er komið fram, og þess má geta að fram undan hjá henni er ferð til Úrúgvæ, því þjóðarhljómsveitin þar hefur boðið henni að koma og halda um tónsprotann í flutningi á verkum kvenna, meðal annars eftir Jórunni Viðar.