Ilmreyr er nýútgefin bók Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur sem hún skrifar sem kveðju til móður sinnar, Magdalenu Thoroddsen, sem lést árið 2018. Bókin er um leið óður til formæðra og -feðra sem háðu lífsstríð sitt á Vestfjörðum.

„Ég byrjaði að skrifa þessa bók við banabeð móður minnar fyrir þremur árum síðan,“ segir Ólína. „Þá reikaði hugurinn aftur í tímann til minninganna sem tengdust okkur báðum. Margt af því eru sögur og ljóð sem hún miðlaði okkur dætrum sínum – minningar hennar sjálfrar, móður hennar og formæðra sem hafa lifað í sögum og sögnum fjölskyldunnar. Við skrifin má segja að ég hafi gripið í ættarstrenginn, ef hann er sambærilegur naflastrengnum, og fundið æðasláttinn þar.“

Bókin er sjálfsævisöguleg að hluta. Ólína fjallar meðal annars um bernsku sína og ungdómsár, en segir einnig fjölskyldusögu. Hún tvinnar saman þjóðfræði, sagnfræði og skáldskap í eina samfellda heild sem að hluta er saga hennar sjálfrar. „Ilmreyr er eiginlega samofin saga úr ýmsum þáttum,“ segir hún.

Magdalena, móðir Ólínu, fæddist árið 1926 og ólst upp í Vatnsdal í Patreksfirði. „Það var sagt um bát Vatnsdalsmanna að hann þekktist á söngnum sem þaðan barst þegar róið var á miðin,“ segir Ólína. „Mamma var alin upp á mannmörgu heimili í fjórtán systkina hópi. Lífsbaráttan var hörð en samt mikil menning og oft glatt á hjalla. Til að mynda styrkti afi stofugólfið svo hægt væri að dansa á laugardögum.“

Strengur milli kynslóða

Magdalena var ein af fyrstu menntuðu blaðamönnum Íslands. Hún sigldi til Stokkhólms 22 ára gömul og sneri aftur til Íslands með blaðamannapróf og vann bæði á Morgunblaðinu og Tímanum. „Hún var líka skáldmælt og góður rithöfundur þótt hún gæfi ekkert út eftir sig,“ segir Ólína. „Mig langaði að láta hana sjálfa njóta sín í þessari bók – sögurnar hennar og ljóðmælin sem varpa ljósi á líf hennar og rætur. Um leið skýri ég samband okkar og samskipti í gegnum tíðina og spegla þannig sjálfa mig í uppruna mínum.“

Ólína lýsir skrifum bókarinnar sem vissu ferðalagi og að eftir á að hyggja hafi hún verið ákveðin úrvinnsla, jafnvel uppgjör. „Það er einhver sameiginlegur þráður í lífi kvennanna í bókinni sem kom mér aðeins á óvart,“ segir Ólína. „Þótt samfélagið hafi mikið breyst á þeim tíma sem bókin spannar þá eru konurnar í ættinni, kynslóð fram af kynslóð, að kljást við sameiginlegar áskoranir og hlutskipti. Það er sérstakt að fara í svona leiðangur, spegla sig í lífi formæðra sinna og finna þannig fyrir strengnum sem tengir kynslóðirnar.“