Þórsteinn Ragnarsson hefur gegnt formennsku í Kirkjugarðasambandi Íslands frá stofnun þess árið 1995 en stígur nú til hliðar eftir 26 ára starf.

„Ég fann það þegar ég var búinn að vera í tæpt ár í starfi sem forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur að það vantaði tengiliði út á land og að fólk innan þessarar starfsgreinar þekktist betur,“ segir Þórsteinn. „Það var um tuttugu manna hópur sem fundaði um stofnun sambandsins og komst að þeirri niðurstöðu að það væri löngu tímabært að stofna landssamtök um málefni kirkjugarða.“

Við stofnun voru um tuttugu garðar sem komu að sambandinu, en á landinu öllu eru um 250 kirkjugarðar eða grafreitir. Þórsteinn segir flesta örsmáa, að því leyti að þar er sjaldan grafið, enda sé orðið fámennt í sveitum. Eftir nokkur ár stækkaði umfang sambandsins og þá voru allir kirkjugarðar landsins í Kirkjugarðasambandinu.

Stjórnsýsla og skerðingar

Eitt fyrsta verkefni sambandsins segir Þórsteinn að hafi verið varsla kirkjugarðanna gegn fjárveitingarvaldinu.

„Það var sífellt verið að kroppa af þeim lögbundnu tekjum sem garðarnir höfðu og tengdust okkar verkefni því fyrstu árin,“ útskýrir hann. „Síðan tókum við verkefni eins og að reyna að efla samband milli þeirra sjálfseignarstofnana sem kirkjugarðar voru þannig að stjórneiningunum yrði fækkað, helst niður fyrir hundrað.“

Þrátt fyrir að stjórn sambandsins hafi verið samstíga í því viðhorfi, segir Þórsteinn að henni hafi orðið lítið ágengt í þeim efnum.

„Það var eins og menn teldu að eitthvað tapaðist út við við þetta, þrátt fyrir að við hefðum alltaf lagt áherslu á að það yrði einn fulltrúi frá hverjum garði í stjórninni. Ég er þó sannfærður um að þeir sem taka við keflinu muni einbeita sér að þessu enda er gríðarlegt hagsmunamál fyrir kirkjugarðageirann að einfalda stjórnsýsluna.“

Þá segir Þórsteinn mikilvægt að standa vörð um hagsmuni garðanna og leiðrétta þær skerðingar sem hafa dunið á geiranum frá hruni.

Skjólgóð fegurð

Hlutverk kirkjugarða einskorðast ekki aðeins við að minnast þeirra látnu heldur eru þeir á Íslandi sem og í öðrum löndum grænir reitir í borginni þar sem fólk getur sótt í rólegt og fallegt umhverfi. „Hér í Reykjavík er gríðarlegur fjöldi sem leggur leið sína í Hólavallagarð. Í Fossvogsgarði er mjög skýlt og þegar norðangarri er hér yfir sumartímann er logn þar og fólk gengur um garðinn til að lesa á spjöld sögunnar,“ segir hann. „Erlendis eru þetta stundum einu griðastaðirnir sem fólk hefur í stórborgunum – þessi grænu svæði sem hafa þó meira rutt sér til rúms á síðustu árum.“

Garðyrkja og góðar bækur

Þórsteinn er þessa dagana að ljúka störfum sem forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur samhliða störfum sínum fyrir Kirkjugarðasambandið. Við formennsku í Kirkjugarðasambandinu tekur Smári Sigurðsson en Þórsteinn stefnir á að taka því heldur rólega.

„Núna sný ég mér bara að þeim hugðarefnum sem ég hef,“ segir hann. „Ég er með bústað fyrir austan fjall þar sem ég ætla að yrkja jörðina og rækta. Svo er kannski að lesa fleiri góðar bækur en ég hef gert undanfarin ár, nú þegar það gefst meiri tími til að staldra við.“