Fyrir fjöru­tíu árum komu fursta­hjónin í Móna­kó, Rainer og sjálf Grace Kel­ly til landsins í helgar­ferð á­samt börnum sínum. Tölu­vert marg­menni mætti í Sunda­höfn til að taka á móti þeim og skoða franska skemmti­ferða­skipið Mer­moz sem þau ferðuðust með. Fursta­hjónin fóru að Bessa­stöðum fyrsta kvöldið þar sem þau þáðu kvöld­verðar­boð frú Vig­dísar Finn­boga­dóttur.

Dr. Sturla Frið­riks­son hafði veg og vanda af skipu­lagningu heim­sóknar fursta­hjónanna og sagði hann við Tímann að fursta­hjónin hefðu verið afar á­nægð með heim­sóknina og þótt mikið til þess koma sem þau sáu hér.

Daginn eftir komuna til landsins fór fursta­fjöl­skyldan af stað í ferða­lag og byrjaði á að fara í Ár­bæjar­safnið. Þaðan var haldið í Kjós þar sem þeir feðgar, Rainer og Albert, renndu fyrir lax. Sam­kvæmt frá­sögn Tímans settu þeir feðgar í ein­hverja smá­fiska og vildu helst ekki hætta veiðum enda laxinn að stökkva allt um kring. Þeir stoppuðu við ána í um klukku­stund.

Frá Kjós var haldið yfir til Þing­valla þar sem vindur var all­mikill. Hafði Kel­ly mikinn á­huga á gjánum og sprungunum og spurði margs. Við Lög­berg var sagan rakin. Eftir Þing­velli var haldið inn á Laugar­dals­vellina upp undir hellinn, þar sem tjaldi var slegið upp og skjól myndað svo fursta­hjónin gætu borðað úti. Sam­kvæmt frá­sögnum fjöl­miðla minnti hlað­borðið helst á at­riði úr Stellu í or­lofi því laxinn var borinn fram í alls konar formi. Þá var að sjálf­sögðu há­karl í boði fyrir þá sem þorðu.

Fram kom í Tímanum að Karó­lína ætti ís­lenskan hest sem hún héldi mikið upp á og hafi fundist stór­kost­legt að sjá ís­lenska hesta hlaupa um í náttúrunni. Síðan var brunað að Gull­fossi og Geysi þar sem unga fólkið dáðist að Strokk, sem gaus nokkrum sinnum meðan fursta­hjónin skoðuðu hann. Þaðan lá leið aftur að Sunda­höfn og fursta­hjónin héldu af landi brott.

Rainer fursti og Caroline af Mónakó skoða varning í Rammagerðinni. Samkvæmt frásögn Morgunblaðsins keypti fjölskyldan nánast hálfa búðina og fór út með marga böggla.
Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Morgun­blaðið náði tali af Kel­ly og sagði stjarnan að þau hefðu gjarnan viljað hafa haft meiri tíma. „Það er fal­legt land sem þið eigið. Land fullt af and­stæðum og það er það sem gerir það á­huga­vert. Við höfum átt skemmti­lega ferð.“

Mánuði síðar, eða 14. septem­ber, lést Kel­ly eftir hörmu­legt bíl­slys sem hún lenti í degi fyrr. Hún var að keyra til Móna­kó eftir dvöl á sveita­setri fjöl­skyldunnar þegar hún fékk heila­blóð­fall og missti stjórn á bílnum, sem fór fram af hárri kletta­brún. Stép­hani­e, dóttir hennar, sem var far­þegi í bílnum, reyndi hvað hún gat til að af­stýra slysinu en fékk ekki við neitt ráðið.

Kel­ly hlaut tölu­verðan heila­skaða í slysinu og komst ekki til með­vitundar þannig að Raini­er á­kvað að hún skyldi tekin úr öndunar­vél. Hún er af mörgum talin ein besta leik­kona sem Hollywood ól af sér, en hún lagði leik­listina á hilluna að­eins 26 ára til að taka við sem fursta­frú.

Kel­ly hlaut mörg virt verð­laun á ferlinum og hampaði þar á meðal einni Óskars­verð­launa­styttu fyrir leik sinn í The Coun­try Girl frá árinu 1954. Hún lék í ellefu kvik­myndum á stuttum en glæstum ferli þar sem hún deildi tjaldinu með mörgum af frægustu leikurum kvik­mynda­sögunnar, til dæmis Clark Gable, Ava Gardner, Gary Cooper, Cary Grant, Frank Sinatra og Bing Cros­by, undir stjórn leik­stjóra á borð við Hitchcock, John Ford og Fred Zinnemann.