Kortavefur Já.is er vinsæll hjá Íslendingum sem eru, rétt eins og aðrar þjóðir, misratvísir. Vefurinn býður einnig upp á 360 gráðu götumyndir þar sem hægt er að gera sér grein fyrir aðstæðum, en dágóður tími hefur liðið síðan myndirnar voru síðast uppfærðar. Það breytist hins vegar í byrjun næstu viku.
„Á þriðjudagsmorgun ættu allar myndirnar að vera uppfærðar og komnar inn á vefinn hjá okkur,“ segir Helgi Reynir Guðmundsson, sölustjóri hjá Já.is og bætir við að götumyndirnar séu mikið notaðar af landsmönnum. „Ég myndi segja alveg gríðarlega mikið. Eftir að við settum þetta í loftið þá eru þetta sirka 130 þúsund manns sem nota kortin í heild sinni á mánuði, eða um 60 þúsund manns sem smella á götumyndina í 360 gráðum.“
Kúlumyndirnar svokölluðu eru um 629 þúsund á vefnum í dag en með uppfærslunni verða þær yfir 700 þúsund. Verkefnið er umfangsmikið og fer þannig fram að bíll keyrir um landið með áfasta 360 gráðu myndavél á þakinu. Öll myndagögnin eru með GPS-hnitum sem eru tengd kortavefnum.
„Þetta er einn aðili sem tók rúntinn og það fór meira og minna allt sumarið í þetta,“ segir Helgi Reynir. „Við vorum í samstarfi við Toyota sem lánaði okkur bíl. Bílstjórinn tók þetta svo í skömmtum því við erum að stíla inn á daga þegar veðrið er gott.“
Þar á eftir þarf tæknideild Já.is að þræða myndirnar og afmá persónuupplýsingar á borð við bílnúmer og andlit.
„Það er heljarmikil vinna sem fylgir þessu.“
Hvar er Valli?
„Hingað til höfum við gert þetta annað hvert ár en það datt eitt út vegna Covid svo það eru orðin fjögur ár síðan við uppfærðum síðast,“ segir Helgi Reynir. „Það var alveg kominn tími á nýjar myndir enda fullt af götum sem voru ekki til þegar við tókum síðast. Þörfin er þannig brýn.“
Samfélagið fylgist greinilega líka mikið með myndunum.

„Það er oft haft samband við okkur með spurningar um hvenær við komum næst að taka myndir,“ útskýrir Helgi Reynir. „Fólk vill oft að það sjáist þegar það hefur málað eða gert upp húsin sín. Núna getur það fólk tekið gleði sína á ný.“
Á vefnum er til samfélag fólks sem þræðir sambærilegar kúlumyndir frá Google Street View til að finna athyglisverða hluti sem kunna að leynast þar.
Hefur eitthvað áhugavert fundist á kúlumyndunum hjá Já?
„Já, þegar við gerðum þetta fyrst þá var einn sem vissi að við værum að koma svo að hann kom sér fyrir, uppklæddur eins og Valli úr Hvar er Valli? bókunum,“ svarar Helgi Reynir og hlær. „Það var mjög gott grín.“
Kúlumyndirnar eru einnig grunnurinn að Flakk-leiknum svokallaða þar sem leikmenn lenda á fimm stöðum á landinu og þurfa að giska hvar myndin er tekin. Frá því að leikurinn fór í loftið hafa tæplega 200.000 leikir verið spilaðir og eru aðdáendur orðnir spenntir að fá að flakka um nýjar myndir.