Fyrst þegar hringt er í Skúla Björn, forstöðumann Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri í Fljótsdal, má hann ekki vera að því að spjalla. Hann er á símafundi. Þegar hlé gefst milli funda, gríp ég tækifærið og fyrsta spurning er: Ertu mikið í fjarfundahöldum þessa dagana? „Ég nota þá tækni mikið þó það vaxi hratt núna, dag frá degi. Er að fara að detta inn á fund með forsvarsmönnum menningarstofnana um allt land og menntamálaráðuneytinu. Það er gott meðan Internetið hrynur ekki líka. Þá færi að versna í því, það er ekkert af koparlínunum eftir til að taka venjuleg símtöl.“

Skúli Björn er uppalinn á Héraðinu, nánar tiltekið á Litla-Bakka í Hróarstungu, á bökkum Jöklusár á Dal. „Ég er sveitastrákur og var síðast á ættaróðalinu nú um helgina, þó ekki sé stórbúskapur þar lengur.“ Hann kveðst hafa tekið stúdentinn norður á Sauðárkróki, verið einn vetur í Frakklandi og svo farið í íslenskunám við Háskóla Íslands. „Ég átti meistararitgerðina eftir en er að reyna að bæta fyrir það núna með meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun við sama skóla,“ lýsir hann.

Kannski dagamunur í kvöld

Aðalerindið er auðvitað að óska Skúla Birni til hamingju með hálfrar aldar afmælið, sem er í dag, 24. mars. „Ég held þetta endi með að verða eins og hver annar dagur að mestu leyti,“ segir hann. „Það verður vinna og fundir en kannski einhver dagamunur í kvöldmatnum, með fjölskyldunni.“ Veitingarnar sem Elísabet Þorsteinsdóttir, konan hans, ber fram á Skriðuklaustri eru víðfrægar fyrir gæði svo ég giska á að hann fái eitthvað gott í svanginn. „Já, það er lokað hjá okkur hér á Skriðuklaustri svo frúin hefur tíma til að stjana við mig,“ segir hann glaðlega og bætir við. „Við brugðum okkur til Portúgal í janúar, það var eiginlega afmælisferð svo ég þarf ekki að kvarta.“

Þau hjón búa á Hallormsstað og þaðan er stutt að Skriðuklaustri, þvert yfir Fljótsdalinn. „Það verður ekkert opnað hér á næstunni en við erum tveir starfsmenn og húsið stórt þannig að við getum haldið allar reglur,“ segir Skúli Björn. Hann kveðst ekkert skyldari skáldinu Gunnari Gunnarssyni en hver annar, þrátt fyrir föðurnafnið. Hann tók við starfinu við Gunnarsstofnun fyrir rúmum tuttugu árum og segir gestafjölda hafa aukist ár frá ári en býst við breytingu nú vegna COVID-19. „Þetta er skemmtilegt starf og fjölbreytt,“ segir hann. „Þó pappírsvinnan sem hvílir á herðum forstöðumanna sé sú sama ár frá ári, eru alltaf nýjungar líka. Við erum dugleg að taka þátt í verkefnum sem krefjast nýrrar tækni, erum til dæmis með sýndarveruleikaherbergi þar sem fólk getur gengið um byggingar klaustursins eins og þær hugsanlega voru.“

Það gætu orðið örsögur

Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs stendur skammt frá Skriðuklaustri og Skúli Björn segir það fela í sér að fleiri gestir geti komið á staðinn í einu og skipt sér. „Það eru ekkert margir staðir hér fyrir austan sem geta tekið á móti tíu rútum á einum degi. Hér förum við upp í 800 gesti úr skemmtiferðaskipum á dag, það gerist nokkrum sinnum yfir sumarið. Sumir hafa áhuga á náttúru svæðisins og geta farið í gestastofuna eða gengið um úti, þeir sem hafa áhuga á klausturminjunum geta skoðað þær og aðrir komið hér inn í hús, fræðst um Gunnar skáld og fleira. Stutt er að Hengifossi og líka Valþjófsstaðarkirkju, og inni í botni dalsins er Óbyggðasetur. Allt styður hvað annað og ferðafólk hefur úr ýmsu að velja. Við sem bjóðum þjónustu á svæðinu vinnum vel saman.“

Skúli Björn fékk Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir sína fyrstu og einu bók, smásagnasafnið Lífsklukkan tifar, sem hann skrifaði 26 ára að aldri. Spurður hvort fleiri bækur séu væntanlegar úr hans smiðju svarar hann: „Ég hef haft allt of lítinn tíma til að skrifa en er að heita á sjálfan mig að koma einhverju frá mér í bókarformi á þessu ári. Það gætu orðið örsögur.“

Vinnustaðurinn er ekkert slor. Gunnar Gunnarsson skáld byggði húsið í herragarðsstíl. Fréttablaðið/Vilhelm