Dalla Ólafsdóttir lögfræðingur er úti að hlaupa þegar ég ónáða hana með símhringingu. Hún tekur því létt. „Ég er búin að taka margar pásur í dag á hlaupunum. Þetta er svo fallegur dagur að maður tímir ekkert að vera fljótur að komast á leiðarenda!“

Afmælishátíð Ferðafélags barnanna stendur frá 10. til 13. júní og Dalla er fróð um hana. Hún segir fjörið byrja annan í hvítasunnu í góðum lundi í Heiðmörkinni þar sem farið verði í skemmtilega útileiki. Hinn 11. júlí verði hjólataktarnir reyndir í Elliðaárdalnum og 12. júní verði æfingar í hugrekki því þá sé sjósund í Nauthólsvík í boði fyrir unga fólkið.

Ferðafélag barnanna var stofnað fyrir tíu árum að norskri fyrirmynd. Það er angi af Ferðafélagi Íslands og þetta er annað árið sem hún og Matthías Sigurðsson, maðurinn hennar, eru umsjónarmenn þess. Þau eiga þrjú börn sem vitaskuld eru með í öllum ferðum félagsins.

„Markmiðið hefur alltaf verið að hvetja til aukinnar útiveru fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Það er þannig að þegar við fáum börnin út kemur fullorðna fólkið með þeim og allir græða,“ segir Dalla. Hún segir starfið einstaklega skemmtilegt og gefandi. „Við erum með fræðslugöngur sem hafa yfirskriftina Með fróðleik í fararnesti, fáum flotta vísindamenn úr háskólanum með okkur. Höfum verið með stjörnuskoðun með Sævari Helga og verðum með pödduskoðun núna 19. júní, skoðum fjöruna og erum með fuglaskoðun,“ lýsir hún.

Fjölskyldur saman við einn af skálum Ferðafélags Íslands.

Þetta er einn anginn, Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar er annar. Hann hófst í fyrra og hefur verið mjög vinsæll að sögn Döllu. „Fullorðna fólkið er skrambi duglegt að fara á fjöll, hlaupa og gera ýmsa hluti í náttúrunni og okkur fannst tilvalið að bjóða upp á útivistarverkefni fyrir fjölskyldur, þá eru allir í sama takti. Við göngum á þrjú fjöll á vorin og þrjú á haustin. Erum einmitt að fara í dag á Skálafell og Hellisheiði,“ (þetta var í gær!) Dalla segir um 100-150 manns mæta í hverja göngu og þegar krakkarnir klári verkefnið fái þau titilinn Fjallagarpur.“

Lengri sumarleyfisferðir eru líka í boði hjá félaginu og Dalla segir fjölskyldur duglegar að skrá sig í þær. „Þá göngum við milli skála, eða út frá skálum. Laugavegsgöngurnar hafa verið mjög vinsælar. Við verðum með tvær göngur yfir Fimmvörðuháls í sumar, við göngum á Víknaslóðum fyrir austan og svo hafa krakkar verið að ganga Kjalveg og um Jökulsárgljúfur. Það sem er svo mikilvægt er að maður sér að krakkar njóta samverunnar með fjölskyldunni, þeir eflast líka, fá sjálfstraust, seiglu og hugrekki. Þeim finnst kannski ekkert spennandi að leggja af stað en þeir eru alltaf glaðir þegar þeir koma heim. Það er svo gaman fyrir börn að takast á við hæfilegar ögranir og hollt fyrir krakka að læra snemma að þeir geta gert hluti sem eru svolítið erfiðir, klárað þá og verið stoltir af sjálfum sér. Það þarf bara að byrja. Að fylgjast með krökkunum fá sjálfstraustið og upplifa gleðina er ótrúlega gefandi.“

Dalla segir krakka frá fimm til sex ára aldri hafa farið í allar þessar göngur sem hún hefur talið upp. „Þeir leika sér að því og finnst það gaman. Börn eru svo orkumikil. Við segjum þeim mikið af sögum, þjóðsögur og útilegumannasögur og fræðum þau um náttúruhamfarir. Þeim finnst svo gaman að setja náttúruna í eitthvert samhengi og við erum að reyna að færa hana nær þeim.“