„Ég byrjaði í þessi árið 2004. Það eru gefin út fjögur blöð á ári svo þau eru orðin mjög mörg blöðin sem hafa komið út undir minni stjórn,“ segir Kristín Linda Jónsdóttir, fráfarandi ritstjóri Húsfreyjunnar.

Tímaritið hóf göngu sína árið 1949 og er gefið út af Kvenfélagasambandi Íslands. Í húsfreyjunni eru efnismikil viðtöl við konur úr íslensku samfélagi, mataruppskriftir og fjölbreyttur handavinnuþáttur ásamt fræðslugreinum frá Leiðbeiningastöð heimilanna, krossgátu og ýmsum greinum um heilsu og lífsstíl.

Á þeim átján árum sem Kristín Linda hefur ritstýrt Húsfreyjunni segir hún ýmislegt hafa breyst, svo ekki sé talað um breytingarnar á þeim rúmu sjötíu árum sem liðin eru frá því að fyrsta blaðið kom út. „Stærsta breytingin er sú að konur eru almennt komnar út af heimilinu,“ segir Kristín.

„Þó að húsfreyjan hugi alltaf að málefnum heimilisins þá höfum við í auknum mæli vakið athygli á konum í ýmsum greinum atvinnulífsins sem eru að gera spennandi hluti, þarna eru tækifæri til að tala við konur sem eru að taka að sér spennandi verkefni og aðrar konur geta speglað sig í,“ bætir hún við.

Sigurlaug Viborg, forseti KÍ, Kristín Linda og Una María Óskarsdóttir, varaforseti KÍ, á 60 ára útgáfuafmæli Húsfreyjunnar árið 2009.
Fréttablaðið/Daníel

Kristín Linda segist hafa notið áranna í starfi sínu sem ritstjóri en hún er einnig menntuð sálfræðingur. Það er hennar aðalstarf og mun hún halda því áfram. „Ég hef nóg að gera og undanfarin 4-5 ár hef ég sérhæft mig í því að aðstoða konur, 40 ára og eldri, sem hafa tekist á við ýmis lífsins verkefni,“ segir hún. „Ég hef verið með viku námskeið fyrir þær á Tenerife og Spáni þar sem ég fer með kvennahópa frá Íslandi og fókus er settur á að hjálpa þeim að byggja sig upp,“ bætir hún við.

Kristín segir afar mikilvægt fyrir allt fólk að eiga áhugamál, þá sérstaklega fólk sem er farið að eldast. „Á yngri árum erum við mikið með hugann við heimilið og börnin og áhugamálin okkar tengjast því mikið. Þegar við verðum eldri og börnin eldri er mikilvægt að eiga spennandi áhugamál.“

Kristín sjálf hefur prufað hin ýmsu námskeið, meðal annars olíumálun. „Fyrir þremur árum fór ég á þetta olíumálningarnámskeið og ég fór líka á golfnámskeið en mér fannst það bara ekkert gaman, en á myndlistarnámskeiðinu fannst mér svo gaman og ég er að fara að opna mína fyrstu myndlistarsýningu á Akureyri í haust,“ segir Kristín og stoltið leynir sér ekki.

„Núna mun ég einbeita mér meira að þessu, en það er svo gott í seinni hálfleik ævinnar að gera eitthvað nýtt og spennandi,“ segir hún.

„Það verður nefnilega sjaldgæfara að maður gerir eitthvað nýtt því eldri sem maður verður því þá hefur maður prófað svo margt. Maður þarf því að leggja sig aðeins fram við það að finna eitthvað nýtt,“ segir Kristín en sýningin verður á Bláu könnunni í september og þar mun hún sýna yfir tuttugu olíumálverk.