Hvíta húsið á Selfossi, sem fagnar fimmtán ára afmæli sínu um þessar mundir, er eitt síðasta vígi sveitaballsins á svæðinu.

Hvíta húsið á Selfossi fagnar fimmtán ára afmæli sínu um þessar mundir. Einar Björnsson segir tímamótin stór því það sé sjaldgæft að sami eigandi og sama rekstrarfélag standi fyrir rekstri á stað sem Hvíta húsinu svona lengi.

„Ég rek annað fyrirtæki sem heitir EB kerfi og okkur vantaði húsnæði undir það og þá stóð þetta hús autt,“ segir Einar sem tók við húsinu 2007. „Á sama tíma var nánast enginn veitingastaður eða skemmtistaður á Selfossi. Kaffi Krús var eiginlega það eina sem var eftir í sjö þúsund manna byggðarlagi. Við vorum þá eins og Hrói Höttur og þurftum að bjarga skemmtanalífinu í bænum.“

Staðurinn var opnaður 10. desember 2007, steinsnar frá hruninu.

„Þá var nú okkar gæfa að hafa þetta hús og bjóða upp á skemmtanir,“ segir Einar. „Í þrengingunum leyfir fólk sér nefnilega að drekka brennivín, skemmta sér og fara út að borða. Það gekk þannig ágætlega að reka húsið þrátt fyrir að allt væri á hvolfi í samfélaginu.“

Fyrir utan skemmtanareksturinn eru Mömmumatur, EB kerfi og FM Útvarp Suðurland í húsinu.

„Þetta er allt saman afþreyingartengt og snýst um að gleðja fólk um augu, eyru og munn,“ útskýrir Einar og hlær. „Þetta er svona eins konar menningarmiðstöð fyrir okkur hér á svæðinu.“

Á árunum fimmtán hafa verið haldin hundruð viðburða í Hvíta húsinu og telur Einar að staðurinn sé eini sveitaballastaðurinn sem eftir er í þessum landshluta.

„Það er nánast bara horfið,“ segir hann. „Við höfum í seinni tíð reynt að hafa þetta sjaldan en stórt.“

Selfoss hefur á stuttum tíma tekið gríðarlegum breytingum og er veitinga- og skemmtanalífið í miklum blóma. Einar segir þó að Hvíta húsið standi traustum fótum.

„Auðvitað er frábært að sjá að flóran hérna hafi stækkað, en við höldum bara okkar striki og bjóðum áfram upp á stærri viðburði eins og Kótilettuna og böll. Þess á milli fara menn svo bara á pöbbinn.“

Fagnað með Pallaballi

Afmælinu verður svo fagnað næsta laugardag með Pallaballi, en Páll Óskar hefur verið eitt tryggasta númer staðarins frá upphafi. Einar er spenntur fyrir því að taka á móti Sunnlendingum sem og fólki úr höfuðstaðnum sem hann segir mynda stóran hluta fastagesta.

„Það er gríðarlega mikið af höfuðborgarbúum sem koma á þessi böll því þeir hafa ekki í nein önnur hús að venda hvað sveitaböllin varðar. Við höfum fundið það nýlega að það virðist vera jafnlangt báðar leiðir,“ segir hann og hlær. „Það eru ekki alveg allir sem fatta að þetta er sami hálftíminn fram og til baka.“

Sveitaböllin voru einu sinni allsráðandi í íslensku skemmtanalífi en misstu síðan völdin yfir til tónlistarhátíða. Það eru þó einhverjir töfrar við íslenska sveitaballið sem ekkert toppar, að mati Einars.

„Við erum voðalega þakklát fyrir að geta haldið svona viðburðum áfram þrátt fyrir breytt landslag. Inn við beinið finnst öllum gaman að fara á sveitaball. Eftir klukkan tvö eru bæjarróninn og háskólarektor komnir á sama stað á djamminu. Það skemmta sér allir í sömu sænginni á sveitaballi!“