„Innblásturinn er nú aðallega bara mitt eigið kynferði,“ segir Ragnheiður Lárusdóttir sem sendi nýlega frá sér sína þriðju ljóðabók, Kona/Spendýr. „Þetta eru pælingar sem ég er búin að vera með alveg síðan ég var barn.“

Ragnheiður minnist þess að sem prestsdóttir hafi hún til að mynda oft velt fyrir sér kynjahlutverkum undir messum föður síns.

„Þegar ég sat í kirkjunni hugsaði ég iðulega um föður, son og heilagan anda, og hvernig ég ætti að passa inn í það dæmi,“ segir hún. „Ég var hvergi þarna á blaði. Þetta er í eiginlega öllu sem maður gerir, alveg fram eftir öllum aldri. Maður er í rauninni frávik í samfélaginu fyrir það að vera kona.“

Bókin Ósýnilegar konur var Ragnheiði hugðarefni en þar rannsakar Caroline Criado Perez rætur kynjamismunar.

„Þar kemur svo greinilega í ljós sönnun fyrir manns eigin pælingum í gegnum alla tíð,“ segir Ragnheiður. „Það er hvergi reiknað með konum, hvorki í öryggisútbúnaði bíla, í lyfjaframleiðslu, einkennisfatnaði eða öðru. Það er mikið af byrðum sem eru miðaðar við líkamsstyrk karla, verkfæri eru miðuð við handastærð karla og svo framvegis.“

Titill bókarinnar vísar einnig í dýrslegri hliðar þess að vera kona.

„Þetta er líka um það að vera spendýr, að fæða barn og mjólka,“ útskýrir hún. „Maður verður svolítil belja á bás þegar maður er óléttur.“

Upplifunin sem Ragnheiður lýsir í bókinni er þó ekki öll neikvæð.

„Það er auðvitað alveg bráðskemmtilegt að vera kona, líka, og margt sem er ákveðin forréttindi,“ segir hún. „Ljóðin fjalla svolítið um þetta og líka þessar gráðugu hendur sem maður hefur lent í um ævina og þurfti að slíta og berja af sér og var ekki talað um af viti fyrr en fyrir áratug eða svo. Þetta var eitthvað sem konur áttu bara að þegja yfir og bera með sér.“

Ragnheiður segist halda að allar konur séu með þessar pælingar.

„Það er svo spurning hvað þær gera með þær. Þetta er bæði ýmiss konar pirringur en líka sú ánægja sem fylgir því að vera kvenkyns.“

Ragnheiður hefur áður gefið frá sér bókina 1900 og eitthvað sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og tilnefningu til Maístjörnunnar. Síðast sendi hún frá sér bókina Glerflísa­klið sem hún orti meðal annars sem ákveðið uppgjör við móður sína sem lést úr alzheimer. Í dag vinnur Ragnheiður að handriti sem hún kallar Veður í æðum.

„Ég er ekki komin mjög langt með það en þar er ég að skoða áhrif umhverfisins á okkur og manninn í náttúrunni,“ segir hún.