Mig langar að vera hérna heima og fá bara alla vini og vandamenn í eitt partí,“ segir leikmyndahönnuðurinn Stígur Steinþórsson um hátíðahöld í tilefni sextugsafmælisins sem er í dag. Hann kveðst tiltölulega nýlega fluttur á Njálsgötu. „Það er gamall og langþráður draumur að vera í miðbænum, hér er ég með konunni minni, henni Sillu og okkur líður mjög vel. Þetta er alveg stórbrotið,“ segir hann hlæjandi og inntur eftir fjölskyldustærð er svarið: „Ég á fimm börn með sjö konum, liggur við, og fjögur barnabörn. Svakalega ríkur maður!“

Stígur kveðst lengi hafa unnið sjálfstætt við leikmyndahönnun og hafa nóg að gera. „Verkefnin eru við leikhús og bíómyndir af öllum gerðum, innlendar myndir og stórmyndir sem eru teknar hér á landi af stjórnendum í Hollywood og víðar. Svo hef ég líka farið út að vinna. Var nýlega á Indlandi í skemmtilegu verkefni í borginni Mumbay. Það var stóreflis Hollywood-framleiðsla undir stjórn Christophers Nolan, en bara smá sena í myndinni tekin þarna á Indlandi og ég var að vinna að undirbúningi hennar. Það var ægilega gaman að dragast þangað. Fagið nýtist mér líka í sambandi við innanhússarkitektúr fyrir fyrirtæki og stofnanir, söfn og sýningar svo þetta er fjölþætt starf.“