Gestagangur er nýr söngleikur sem Leikfélagið Hugleikur frumsýnir í kvöld klukkan 20 í gamla nemendaleikhúsinu á Sölvhólsgötu 13. Höfundur er Þórunn Guðmundsdóttir, söngkennari og tónskáld. „Gestagangur gerist á hernámsárunum og er að vissu leyti framhald af leikritinu Stund milli stríða sem var sett á svið fyrir fimm árum og fjallaði um kreppuárin. Þrjár persónur úr því bönkuðu upp á og mér fannst áhugavert að sjá hvaða áhrif seinni heimsstyrjöldin hafði á þær, borgarlífið og landið allt. Annars er mannlífið fjölskrúðugt í Gestagangi, sumar persónur eru byggðar á raunverulegum fyrirmyndum en mjög frjálslega skapað í eyður.“

Þorgeir Tryggvason leikstýrir fjölmennum hópi. „Það eru 30 manns sem koma fram á sviði, bæði leikarar og hljómsveit að ótöldum þeim sem eru bak við tjöldin, ljósamönnum, sminkum, þeim sem sjá um búninga, leikmynd og miðasölu,“ lýsir Þórunn. „Efnið sveiflast frá því að vera næstum farsakennt yfir í alvarlega atburði svo það spannar víðan skala, eins og lífið. Stríðsárin voru ólgutímar og margt gerðist, bæði gleðilegt og alvarlegt.“ –