Fyrir akkúrat sextíu árum fæddist lítill snáði austur á Höfn í Hornafirði, inni í svefnherbergi heima hjá ömmu sinni, Signýju Gunnarsdóttur ljósmóður. Þetta var Grétar Örvarsson sem glatt hefur marga með snilli sinni gegnum tíðina, farið hring eftir hring kringum landið í tónleikaferðir með Stjórninni og skorað hátt í Eurovision með Siggu Beinteins.

Grétar segir ræturnar vera á Höfn. „Mamma og pabbi voru bæði fædd á Höfn, pabbi flutti þaðan kringum 1960 en mamma bjó þar til 1983 og ég átti heima þar fyrstu tuttugu ár ævi minnar. Var búinn að stofna hljómsveitir þar með bestu hljóðfæraleikurum staðarins, Ragga Meisa, Sæma Harðar og Birki Birgis sem var á bassanum. Einn veturinn vorum við með hljómsveit í Sindrabæ sem hét Tilbreyting og spiluðum á böllum hverja einustu helgi. Þá voru alltaf böll.“

Þrátt fyrir að ballmenningin í landinu hafi vissulega dalað hefur hin vinsæla sveit Stjórnin gengið í endurnýjun lífdaga. „Við settum allt í gang í fyrra á þrítugasta afmælisárinu, gáfum út nýtt lag og erum búin að spila og syngja linnulaust síðan um páskana 2018,“ segir Grétar og kveðst ánægður með það. „Mér finnst bara svo gaman að spila, það gefur lífinu gildi. Svona var pabbi líka. Hann spilaði eiginlega fram í andlátið eða þangað til hann var orðinn svo veikur að það þurfti að rétta honum harmónikkuna þar sem hann sat.“

Varst þú eitthvað byrjaður að feta í fótspor hans og skemmta úti á Kanarí? „Ég tyllti mér þar niður í nokkrar vikur í minningu hans, heimsótti þá sem hann hafði spilað hjá og tók í hljóðfæri þar. Fólki þótti gaman að hitta mig og þá komst ég að því hvað pabbi hafði verið vinsæll, ekki bara meðal Íslendinga, heldur líka Norðmanna og Svía. Hann var eins og kóngur í ríki sínu á Kanarí, þar spilaði hann í 20 ár og leið vel.“

Heyrðu, verður stuð í dag á afmælinu? „Fólkið mitt er úti um hvippinn og hvappinn svona yfir hásumarið og sumir búa í útlöndum. Ég ætla því að fresta afmælisveislunni fram í september, þá næ ég frekar að hóa öllum saman. Mamma, Karen Karlsdóttir, átti afmæli í september og því er sá mánuður mér kær. En, ég geri eitthvað skemmtilegt í dag.“