George W. Bush repúblikani sigraði demókratann Al Gore naumlega í forsetakosningum í Bandaríkjunum sem fram fóru þennan dag árið 2000. Sú niðurstaða fékkst þó ekki á hreint fyrr en hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp þann úrskurð í desember, með fimm atkvæðum gegn fjórum.

Bush fékk færri atkvæði á landsvísu en Al Gore og munaði þar um hálfri milljón, en hann náði fleiri kjörmönnum. Bush hlaut 271 kjörmann en Al Gore 266. Þetta voru jöfnustu kosningar í Bandaríkjunum síðan Kennedy vann árið 1960 og í fyrsta sinn frá því á 19. öld sem forseti var kosinn með minnihluta atkvæða.

Endurtalið var í Flórída þar sem minnstu munaði. Sú talning fór fram 22. nóvember.

Dómarar voru búnir að gefa það út að endurtalning mætti ekki taka nema vissan tíma. Því brá fjöldi stuðningsmanna Bush á það ráð að mótmæla fyrir utan talningastöðina í Miami-Dade og reyna að komast inn í bygginguna til að ná að tefja talninguna. Það herbragð tókst og því fór dómur hæstaréttar á þann veg sem að ofan greinir. Ekki bætti heldur úr skák að kosningavélar gátu ekki alls staðar lesið úr niðurstöðum kjörseðla. Því þurfti að handtelja fjölda atkvæða en margir atkvæðaseðlar voru ógildir, til dæmis ef ekki tókst að gata kjörseðilinn í gegn.