Maður veit aldrei þegar maður byrjar hvernig ferlið verður en alltaf gengur það vel og alltaf best á tónleikunum, segir Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna, sem leikur í Langholtskirkju á morgun, 25. janúar, klukkan 16. Hún er samstarfsverkefni fjögurra skóla á höfuðborgarsvæðinu, Sigursveins, Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. „Svo bjóða þeir nemendum annarra skóla að taka þátt, eftir því sem rúm er í hljómsveitinni, ég veit að nú eru þrír nemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga á Selfossi.“

Í sveitinni er fólk á aldrinum 13 til 20 ára. Hún er búin til í hvert sinn og spilararnir eru með mismikla reynslu á bak við sig. Fyrst var hún stofnuð 2004 og hefur árlega haldið tónleika að undangengnu hljómsveitarnámskeiði. „Ég held þetta sé níunda árið sem ég er að stjórna,“ segir Guðmundur Óli. „Auðvitað er kúnst að gera þetta þannig að allt falli í sama farveginn. En ég hef fengist við það í nokkra áratugi að sameina krafta sem koma úr ýmsum áttum, bæði hljómsveitir og kóra, og hef mikla reynslu af því,“ tekur hann fram.

Það er glaðlegur hópur sem ætlar að heilla gesti í Langholtskirkju á morgun með hljóðfæraslætti.

Guðmundur Óli segir gríðarlega vinnu að baki svona tónleikum, einkum hjá nemendunum sem hafa undirbúið sig, hver fyrir sig. „Þeir eru valdir af kennurum sínum og skólastjórnendum. Almenna krafan er að þeir hafi lokið miðstiginu. Sumir hafa spilað í hljómsveitum í sínum skólum, aðrir hafa enga hljómsveitarreynslu. Það er ástæða þess að skólarnir tóku sig saman á sínum tíma, þeir vildu gefa sínum nemendum tækifæri til að spila í sinfónískri hljómsveit, hver og einn skóli hefur ekki mannskap í það en saman geta þeir gert það.“

Á hverju ári er einn sólóisti, þeir hafa spilað á hin ýmsu instrúment og sungið. Nú er það saxófónleikari og það segir Guðmundur Óli nýlundu. „Það eru ekki margir saxófónkonsertar til, svo þeim sem velja það hljóðfæri gefast ekki mörg tækifæri til að spila einleik. Þessi piltur, Björgvin Brynjarsson, er langt kominn í námi.“

Langholtskirkja hefur lengi verið vettvangur þessara árlegu tónleika. Nú er bryddað upp á þeirri nýbreytni að halda líka skólatónleika. „Sami gallinn hefur ávallt fylgt verkefninu,“ segir Guðmundur Óli. „Ef við teldum saman klukkutímana sem fara í það veit ég ekki alveg hvar við mundum enda. Svo hafa alltaf verið bara einir tónleikar, þá er allt búið. Því er skemmtilegt að gefa krökkunum færi á að spila oftar fyrir áheyrendur, um hálftíma dagskrá á tvennum tónleikum fyrir grunnskólanemendur nú á föstudagsmorgni.“